Um 20 manns tóku þátt í hverfisfundi sem haldinn var í Glerárskóla mánudaginn 6. október. Fundurinn er hluti af fundaröð Akureyrarbæjar þar sem íbúar fá tækifæri til að ræða um hverfið sitt með bæjarfulltrúum og starfsfólki bæjarins.
Á fundinum var unnið í litlum hópum þar sem tvær spurningar voru ræddar: Hvað er gott við hverfið? Og hvað má bæta?
Íbúar lýstu ánægju með hversu rólegt og fjölskylduvænt hverfið er, góðri þjónustu og nálægð við náttúru. Þá voru einnig nefnd jákvæð atriði eins og heilsugæslan, góð íþróttaaðstaða og skólarnir í hverfinu.
Helstu umbótatillögur snúa að umferðaröryggi, viðhaldi leiksvæða, bættum gróðri og upplýsingaflæði frá bænum. Einnig voru nefndar hugmyndir um bættar almenningssamgöngur.
Minni ábendingum hefur þegar verið komið áfram innan stjórnsýslunnar en stærri mál verða tekin til umfjöllunar í fagráðum bæjarins.
Næsti hverfisfundur verður haldinn í Lundarskóla í dag, miðvikudaginn 8. október klukkan 17. Öll velkomin.


COMMENTS