Guðni Arnar Guðnason, sérfræðingur í lyf- og innkirtlalækningum, hefur verið ráðinn tímabundið sem forstöðulæknir lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri,SAk, í fjarveru Guðjóns Kristjánssonar. Þetta kemur fram í tilkynningu Sjúkrahússins á Akureyri í dag.
Guðni útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 2000 og stundaði framhaldsnám í innkirtlalækningum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg á árunum 2005–2010. Hann hlaut sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum árið 2007 og í innkirtlasjúkdómum árið 2009.
Guðni starfaði á Sjúkrahúsinu á Akranesi frá 2010–2017 og var yfirlæknir á lyflækningadeild HVE á árunum 2014–2017. Hann hefur jafnframt starfað á innkirtladeild Landspítalans frá 2017 og sinnt hlutastarfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá hefur hann áður starfað á eigin stofu í Læknasetrinu.
Auk klínískrar reynslu er Guðni með diplómu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og sat í stjórn Læknaráðs Landspítala 2018–2020. Hann hefur unnið að rannsóknum á áhrifum höfuðáverka á starfsemi heiladinguls og hefur sérstakan áhuga á sykursýki af tegund 2, testósterónskorti og beinasjúkdómum.
„Það eru fjölmörg tækifæri til að byggja upp trausta og afburðagóða þjónustu í almennum lyflækningum og helstu undirsérgreinum lyflækninga, bæði á legudeild sem og í dag- og göngudeildarþjónustu,“ segir Guðni á heimasíðu SAk.
Ítarlegri umfjöllun má finna á heimasíðu SAk með því að smella hér.


COMMENTS