Háskólinn á Akureyri er nú einn af þremur háskólum sem standa formlega að Snjallræði, fyrsta sameiginlega nýsköpunarhraðli háskóla á Íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við MIT DesignX í Bandaríkjunum og miðar að því að þróa vísindatengdar hugmyndir sem geta haft víðtæk samfélagsleg áhrif.
Sigrún Emilía Karlsdóttir, nemandi í líftækni við HA, sem tilnefnd var í janúar síðastliðnum til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands tekur þátt í Snjallræði með verkefni sitt Charbo. Markmið þess er að umbreyta lífrænum úrgangi í næringarríkan áburð til að bæta íslenskan jarðveg og draga úr þörf á innfluttum áburði. Alls bárust 45 umsóknir í hraðalinn en aðeins tíu teymi hlutu þátttöku, þar á meðal teymi Sigrúnar.
Þátttaka HA í nýsköpunarumhverfinu hefur þegar sýnt árangur líkt og í tilviki Guðrúnar Heimisdóttir, stúdent í sálfræði við HA, sem tók þátt í Snjallræði í fyrra með hugmyndina „Hvað nú?“ sem hreppti annað sætið í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.
Verkefnið hefur sterka tengingu við Norðurland og fer næsta vinnustofa Snjallræðis fram á Hönnunarþingi á Húsavík.


COMMENTS