Hanna nýtt og kósý rými undir nafni Majó í Hofi

Hanna nýtt og kósý rými undir nafni Majó í Hofi

Veitingahúsið Majó hefur gert samning við Menningarfélag Akureyrar um að taka við rekstri veitingastaðarins í Hofi á nýju ári. Rekstaraðilar Majó segjast stefna á að hanna þar nýtt og kósý rými undir nafni Majó þar sem boðið verði upp á fjölbreyttan hádegismat, öfluga veisluþjónustu og vandaðan bar.

„Á meðan við undirbúum nýja staðinn hittum við ykkur áfram með bros á vör í Laxdalshúsi. Við stefnum svo á stóra opnun í Hofi með hækkandi sól og vonumst til að sjá ykkur sem flest þar,“ segir í jólakveðju á samfélagsmiðlum Majó í dag.

Rekstraraðilar Majó eru bræðurnir Magnús Jón og Alexander Magnússynir, ásamt Ídu Irene Oddsdóttur og Aðalsteini Óla Magnússyni. 

Majó hefur sérhæft sig í sushigerð og hefur getið sér gott orð fyrir hana á síðustu árum í Laxdalshúsi, elsta húsinu á Akureyri. Staðurinn er auk þess þekktur fyrir girnilega Pop-up viðburði í firðinum og víðar, gómsæta brottnámsbakka, aðlaðandi stemningu og góðan mat í Laxdalshúsi.

Meira: Majó opnar í Hofi á nýju ári

COMMENTS