Happdrætti í stað kosninga í Lundarskóla vekur óánægju

Happdrætti í stað kosninga í Lundarskóla vekur óánægju

Nemandi í 10. bekk Lundarskóla hefur mótmælt nýju fyrirkomulagi við val í nemendaráð skólans. Þann 23. september verður horfið frá hefðbundnum lýðræðislegum kosningum í 7. til 10. bekk og þess í stað verður dregið um hverjir fá sæti. Vísir greindi frá.

Að sögn nemandans eru rök skólastjórnenda þau að koma eigi í veg fyrir „vinsældarframboð“ og tryggja öllum jafna möguleika. Nemandinn, Benedikt Már Þorvaldsson, bendir hins vegar á í skoðanapistli að þetta kenni ungu fólki að lýðræði sé ekki sanngjarnt og að atkvæði þeirra skipti ekki máli. Hann telur kosningar mikilvægan lærdóm í lýðræðislegri þátttöku hvort sem frambjóðendur sigri eða tapi kosningunum.

Að mati Benedikts brýtur breytingin gegn bæði aðalnámskrá grunnskóla og lögum sem kveða á um að skólar skuli undirbúa nemendur fyrir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi. Með því að láta tilviljun ráða sé verið að taka mikilvægan lærdóm af nemendum um vægi eigin atkvæðis.

COMMENTS