Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur gefið út leiðbeinandi stefnu um ábyrga notkun gervigreindar við skólann. Stefnan, sem er sú fyrsta sem íslenskur háskóli gefur út, felur meðal annars í sér að háskólinn viðurkennir að gervigreind sé og verði órjúfanlegur þáttur í námi, kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu til framtíðar.
Með það að leiðarljósi vill háskólinn nýta þau tækifæri sem felast í gervigreindartækni til að efla gæði í öllum ofangreindum málaflokkum án þess að það gangi gegn grundvallargildum háskólasamfélagsins.
Hér að neðan má lesa tilkynningu frá skólanum:
„Háskólinn á Akureyri hefur skipað sér í fremstu röð í hagnýtingu tækni við kennslu og nám. Í skólanum fer fram stöðug vinna við að meta hvernig best má nýta tækifærin sem felast í tækni, samfélagsbreytingum og nýjum kennsluaðferðum en um leið takast á við áskoranir sem þeim fylgja, ekki síst hvað varðar gæði náms og félagslega þáttinn.
Þessi þróun er afar hröð og það er rökrétt skref að við rýnum í hlutverk gervigreindar, þau tækifæri sem hún færir okkur, hvernig við getum aukið gæði náms við Háskólann á Akureyri og hvað við þurfum að varast.
Við erum afar stolt af því að hafa sett okkur stefnu sem styður við markmið skólans og vera fyrsti íslenski háskóli sem gerir slíkt. Í stefnu háskólans til ársins 2030 er skýrt kveðið á um að nýta framfarir í tækni og gervigreind til þess að vera leiðandi í að skapa eftirsóknarvert umhverfi til náms og starfa og þetta er eitt af mörgum skrefum í þá átt.“ Segir Áslaug Ásgeirsdóttir rektor um stefnuna og bætir við að hún styðji vel við stærri markmið stefnu háskólans
Háskólaráð samþykkti stefnuna í lok október. Hún var unnin í góðu samstarfi við stúdenta, kennara og annað starfsfólk háskólans. Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar, leiddi vinnuna sem inniheldur fimm grunngildi; jafnræði og aðgengi, velferð og mannmiðaða nálgun, gagnsæi og traust, siðferði og akademískan heiðarleika og nýsköpun.
Stefnan er liður í því að styðja við áherslur og vegferð Háskólans á Akureyri. Háskólinn hefur sett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að því að bjóða nám sem hentar síbreytilegum kröfum nútímans. Í framtíðarsýn háskólans, sem finna má í stefnu hans til ársins 2030, segir meðal annars að háskólinn ætli sér að vera miðpunktur þekkingar, nýsköpunar og framfara þar sem framsækin hugsun og hugrekki móta framtíðina saman. Þá er framsækni eitt af gildum háskólans sem fylgir að hann leggur sig fram við að tileinka sér bestu þekkingu og tækni við kennslu, rannsóknir og þróun.


COMMENTS