Haukur Pálmason safnar tónlist eftir Akureyringa á spilunarlistann Akureyri 2025Hljómsveitin Skandall er meðal þeirra sem eiga lag á listanum

Haukur Pálmason safnar tónlist eftir Akureyringa á spilunarlistann Akureyri 2025

Tónlistarmaðurinn Haukur Pálmason heldur úti spilunarlistanum Akureyri 2025 á Spotify þar sem hann safnar saman lögum sem tónlistarfólk frá Akureyri hefur gefið út á árinu. Haukur segist lengi hafa haft mikinn áhuga á akureyskri tónlist.

„Ég er tónlistarmaður sjálfur og hef tekið þátt í akureyrsku tónlistarsenunni í nokkra áratugi.  Svo hef ég sem kennari við Tónlistarskólann horft á marga nemendur okkar blómstra í tónlist líka, þannig að þetta stendur mér ansi nærri. Mér datt þetta svo í hug í sumar, í tilefni Akureyrarvöku, að skoða hvað akureyskir tónlistarmenn hefðu gefið út af tónlist á þessu ári. Það kom mér satt að segja á óvart hvað það var mikið og fjölbreytt. Ég hélt svo bara áfram að bæta lögum á listann þegar að ný lög komu út,“ segir Haukur.

Haukur segist miða við að eitt lag með hverjum listamanni sé á listanum svo að hann verði ekki allt of stór. Hann segir að þó að hann sé nokkuð vel inni í því hvað sé að gerast í tónlistarlífinu á Akureyri þá geti alltaf einhver tónlist farið framhjá honum og því hafi hann beðið fólk að láta sig vita af lögum sem eiga heima á listanum.

„Það eru alveg þó nokkur lög sem hafa ratað á listann eftir ábendingar frá hinum og þessum. Það eru nokkrir listamenn sem eru með eitt jólalag og eitt annað. Í dag eru fimm jólalög á listanum og 42 önnur, sem mér finnst alveg ótrúlega góður árangur,“ segir Haukur.

„Ég hef verið spurður að því hvað lög þurfi að uppfylla til að vera þarna inni, og ég hef svarað því til að þessi listi er með dægurlögum í breiðustu meiningu þess orðs, það er að segja ég er ekki að setja klassísk verk þarna inn, en þarna eru lög sem flokkast sem popp, rokk, latin, hip-hop, indie, og alls konar.  Ef lagið kom út á árinu 2025 og er unnið af einstaklingum sem skilgreina sig sem Akureyringa þá á lagið heima á listanum. Þarna eru Akureyringar sem hafa búið hér alla sína æfi, aðfluttir Akureyringar og brottfluttir Akureyringar, og allskonar. Það skiptir ekki öllu máli, ef þú skilgreinir þig sem Akureyring og hefur gefið út lag á árinu er það lag velkomið á listann,“ segir Haukur.

Hann segir að nú þegar styttist í lok ársins muni hann gefa öllu listafólki á listanum kost á því að skipta út lagi ef þau vilja og loka svo listanum. Svo stefnir hann á að byrja á nýjum lista, Akureyri 2026.

„Eftir að ég loka listanum verður hann bara ansi góð heimild um akureyska tónlist á þessu herrans ári,“ segir Haukur að lokum.

Listann Akureyri 2025 má finna með því að smella hér og í spilaranum hér að neðan:

COMMENTS