Eiður Árnason byrjaði að safna frímerkjum fyrir rúmlega 70 árum þegar hann var sjö ára gamall og gerir enn. Í myndbandinu hér að neðan er ræðir Árni frá Gonzo.Creation við Eið og fær að sjá úr safninu.
„Fyrstu 10 til 12 árin safnaði ég fyrst og fremst notuðum íslenskum frímerkjum og skrifaðist á við börn og unglinga á líku reki sem höfðu sama áhugamál og við skiptumst á frímerkjum. Fljótt kom þó í ljós að erfitt var að ná saman heilstæðu safni á þann hátt, þó markið væri ekki sett hærra en svo að ná saman frímerkjum frá 1944 í svokallað „Lýðveldissafn“,“ segir Eiður.
Hann segir að snemma á sjöunda áratugnum hafi hann farið að leggja sig meir eftir vel stimpluðum fríemerkjum með bæði brúar- og númerastimplum. Áhugi hans hafi vaxið eftir því sem að hann setti sig betur inn í póstsöguna og safnið fór að stækka.
„Fljótt urðu númerastimplanir í forgangi hjá mér. Póstþjónustan úthlutaði þeim fyrstu árið 1903. Árið 1973 var haldin vegleg frímerkjasýning að Kjarvalsstöðum í Reykjavík í tilefni 100 ára afmælis íslenska frímerkisins. Þar eignaðist ég fyrstu bréfin með númarastimplunum og segja má að þá hafi teningunum verið kastað, því síðan hef ég reynt að kaupa þá númerastimpla er boðist hafa, bæði á bréfum og póstkortum, auk þess á stökum frímerkjum og þjónustumerkjum.“
„Það var ekki fyrr en 2021 sem mér tókst að eignast frímerki með læsilegum stimpli af síðasta númerastimplinum sem mig vantaði í safnið, eftir nær 50 ára leit.“
Eiður hefur aðeins einu sinni sýnt safnið sitt. Það var á Nordiu í Garðabæ árið 2023.
„Þar sýndi ég það í 14 römmum. Það var ekki dæmt, ég hafði ekki áhuga á því, enda ekki auðvelt verk að dæma svo sérhæft safn án mikillar þekkingar á verkefninu,“ segir Eiður en nánar er rætt við hann í myndbandinu hér að neðan:


COMMENTS