Listakonan og Akureyringurinn Aðalheiður Sigursveinsdóttir mun opna dyrnar að heimili sínu næstkomandi laugardag á viðburði hennar List og lausamunir.
Þar verður hún með til sýnis ný verk og eldri eftir sig ásamt ýmsum skemmtilegum og forvitnilegum lausamunum til sölu.
Aðalheiður lýsir List og lausamunum sem seríu sem sprettur upp úr minningum hennar frá Akureyri. Ferningarnir á verkum hennar eru byggðir á hurð sem var heima hjá ömmu hennar og afa í Bjarmastíg 9.
„Afi minn, Kristján, var húsgagnasmiður. Hann rak verkstæði þar sem nú eru Bláa Kannan og Græni Hatturinn. Hann var virkur í Félagi Iðnaðarmanna í bænum og tók þátt í undirbúningi að stofnun Iðnaðarsafnsins árið 1945. Mér fannst því fallegt að tengja verkin mín við Iðnaðarsafnið og leita þar að munum sem kveikja upp bæði ljúflegar minninar og blómlega iðnaðarsögu bæjarins,“ segir Aðalheiður.
Heiða er fædd uppalin Akureyringur og hefur unnið síðustu ár að ýmiskonar listsköpun í formi mynda, texta, gjörninga og sviðslista. Hún býður heim í Bjarmastíg 9 milli kl 13 og 18 á laugardaginn.
Nánari upplýsingar um Aðalheiði má nálgast á heimasíðu hennar www.adalheidur.is


COMMENTS