Heimaleikir KA í Evrópu spilaðir á Akureyri

Heimaleikir KA í Evrópu spilaðir á Akureyri

KA menn hafa fengið sérstaka undanþágu frá UEFA til að leika Evrópuleik félagsins í fótbolta á heimavelli. KA hefur fengið undanþágu til að leika fyrstu tvo leiki sína í Sambandsdeild Evrópu á Greifavellinum í ár en félagið varð að ráðast í ákveðnar framkvæmdir á svæðinu til að fá leyfi til þess. Þetta kom fram í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi en fjallað er um málið á vef Vísis í dag.

KA mætir Silkeborg á útivelli 23. júli næstkomandi og síðari leikur liðanna verður svo á Greifavellinum 31. júlí.

„Það sem snýr að öryggismálum þurfum við að ráðast í. Við þurftum meðal annars að klæða stúkuna og tryggja að það kæmist enginn undir hana og svona ýmis smáatriði sem við þurftum að gera. Við erum bara svo heppin og búum svo vel að það voru ábyggilega tuttugu þrjátíu sjálfboðaliðar sem komu og hjálpuðu til í einhverja viku sem við höfðum eftir að þessi möguleiki opnaðist. Við fáum því að spila hérna á Greifavellinum í Evrópu sem er hrikalega mikilvægt fyrir okkur,“ segir Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

Fyrir tveimur árum komst KA í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar og spilaði þá heimaleiki sína á Fram vellinum í Úlfarsárdal og á Laugardalsvellinum.

Viðtalið við Sævar og nánari umfjöllun má finna á vef Vísis með því að smella hér.

COMMENTS