Heimsókn í 600 Klifur

Heimsókn í 600 Klifur

Í haust opnaði 600 Klifur nýja klifuraðstöðu við Dalsbraut 1 á Akureyri. Árni Jóhann Arnarsson og Hreiðar Garðarsson í Gonzo.Creation skelltu sér nýverið í heimsókn og ræddu við Magnús Arturo Batista, einn af eigendum 600 Klifur, og fengu einnig að spreyta sig undir leiðsögn Magnúsar. Afraksturinn má sjá í myndbandinu hér að neðan.

„Þetta er náttúrulega nýtt sport hérna á Akureyri en við sem erum eigendurnir erum búin að vera í útivist og fjallamennsku í dágóðan tíma og erum búin að vera það heppin að fá að ferðast um mikið í Evrópu og Bandaríkjunum. Við erum í raun búin að vera að kynna okkur svona aðstöður um allan heim í svolítið langan tíma. Þegar þú ert búinn að kynnast samfélagi þar sem að svona klifur, kaffihús og flottir og frambærilegir salir eru, þá finnst manni klárlega vera vöntun á því,“ segir Magnús í spjalli við þá Árna og Hreiðar.

Aðstaðan hjá 600 Klifur er stórglæsileg eins og sjá má í myndbandinu. Auk hágæða klifuraðstöðu er kaffihús og líkamsrækt í húsnæðinu.

„Fólk er að velja sér svolítið klifur sem hreyfingu og líkamsrækt og það er töluverður félagslegur vinkill sem fylgir því. Það er mjög algengt að þau sem að mæta hingað setjist niður og spjalli saman um leiðirnar og klifrið eftir æfinguna. Að því leytinu til er þetta svolítið eins og félagsmiðstöð.“

„Við tókum eftir því að það eru margir farnir að kjósa þetta í staðinn fyrir að mæta í ræktina úti í Evrópu og þess vegna vildum við hafa þetta fjölbreytt hérna. Ef þú ert spenntur fyrir klifrinu og veist að það er salur hérna fyrir neðan sem býður líka upp á líkamsrækt þá geturu bæði hjólað eða lyft og prófað að klifra og þegar þú ert búinn að því sest niður og fengið þér kaffi eða drykk,“ segir Magnús.

Rætt er nánar við Magnús í myndbandinu hér að neðan:

COMMENTS