HönnunarÞing á Húsavík: Hönnun – Matur – Nýsköpun

HönnunarÞing á Húsavík: Hönnun – Matur – Nýsköpun

Húsavík verður miðstöð nýsköpunar og skapandi greina dagana 26. og 27. september þegar ráðstefnan HönnunarÞing fer þar fram. Viðburðurinn ber yfirskriftina „Hönnun – Matur – Nýsköpun“, og mun leiða saman hönnuði, frumkvöðla, matreiðslufólk og áhugafólk til að kanna samspil þessara greina á nýjan og áhugaverðan máta.

,,Þetta verður skemmtilegt, fróðlegt, gagnlegt og bragðgott,“ segir Stefán Pétur Sólveigarson, vöruhönnuður og verkefnastjóri Hraðsins á Húsavík, forsprakki HönnunarÞings. Hann segir markmiðið vera að sameina fjölbreytta sýn ólíkra fagaðila og bjóða gestum að kanna hvernig form, bragð og framtíðarsýn blandast saman.

Dagskráin er fjölbreytt og snertir á málum eins og framtíð matvælakerfa, sjálfbærni og vörumerkjasköpun. Meðal spurninga sem leitað verður svara við eru:

Hver er framtíð grásleppunar? Heitreikt grásleppa? Grásleppu bruschetta? Hrognadýfa? Hvernig finnum við tækifærin?

Hvað er villiöl og afhverju þarf gerla? Hvernig bragðast landslag?

Er hægt er að nota glatvarma til að rækta snigla sem mögulega hliðarbúgrein fyrir íslenska bændur?

Fjöldi þekktra aðila tekur þátt. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, mun heiðra samkomuna með nærveru sinni. Sömuleiðis mun alþjóðlegi matreiðslumeistarinn og margverðlaunaði rithöfundurinn Jody Eddy halda tvö erindi. Jody hefur meðal annars starfað á Michelin-veitingastöðum og er meðhöfundur bókarinnar „North: The New Nordic Cuisine of Iceland“.

Vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands mun einnig vera með sína árlegu vinnuviku í Hraðinu, nýsköpunarmiðstöð Húsavíkur, í tengslum við viðburðinn.

Auk fyrirlestra verða í boði bragðsmiðjur, sýningar, gjörningar og tónleikar, meðal annars í Sjóböðunum. Þá munu veitingastaðir bæjarins taka þátt í hátíðinni með því að bjóða upp á nýja og spennandi rétti úr nýstárlegu hráefni.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) eru samstarfsaðili verkefnisins og frítt er á flesta viðburði.

Nánar á https://www.hradid.is/designthing

COMMENTS