Niðurstaða um jólagjöf ársins fékkst með nokkrum yfirburðum að þessu sinni í árvissri jólakönnun ELKO. Ninja Creami ísvélin hlaut afgerandi kosningu með 24% atkvæða og tekur við af snjallsímum sem verið hafa á toppi listans tvö ár í röð.
Tæplega fjögur þúsund svör bárust í könnuninni sem send var á póstlista ELKO. Líkt og fyrri ár er markmiðið með könnuninni að grafast fyrir um jólagjöf ársins og leita um leið skemmtilegra upplýsinga um hefðir og jólahald landsmanna.
„Á eftir ísvélinni koma símar, heyrnartól og snjallúr og svo komast LED andlitsgrímur á topp tuttugu listann í ár, en þar er um að ræða ljósameðferð sem á að stuðla að betri húð, draga úr hrukkum og jafnvel vinna á bólum,“ segir Arinbjörn Hauksson, forstöðumaður markaðssviðs ELKO.
Þá sé loftsteikingarpotturinn (air fryer) enn á óskalista fólks þrátt fyrir að vera til á um 56% heimila. 21% sagði ýmist að loftsteikingarpottur væri á óskalistanum eða að kominn væri tími á nýjan. LEGO sem er nýjung í vöruúrvali ELKO er í 9. sæti yfir jólagjöf ársins en tæplega 60% svarenda segjast munu gefa að minnsta kosti eina gjöf frá vörumerkinu LEGO í ár.
„Við spyrjum líka alltaf um margvíslegar hliðar jólahaldsins. 42% hefja jólagjafainnkaupin í nóvember og gætir þar líklega áhrifa af afsláttardögum í mánuðinum. Svo segjast um 12% með augun opin og kaupa jólagjafir allan ársins hring.“
Um 20% fullorðinna segjast fá í skóinn á aðfangadag og jafn margir segja það koma í ljós og því um skemmtilega jólahefð sem er að myndast hjá mörgum. 70% setja upp gervitré fyrir jólin og rúmlega 20% lifandi tré. Einungis um 7% setja ekki upp jólatré. Tæpur helmingur gefur tíu gjafir eða fleiri og rúmur fimmtungur áætlar að verja 100 til 150 þúsund krónum í gjafirnar. Um 26% segjast munu verja yfir 150 þúsund krónum og um 5% landsmanna segjast munu verja jólunum erlendis í ár.
Í ljós kom líka að Home Alone er vinsælasta jólamyndin með um 26% atkvæða. Þar á eftir koma rómantíska jólagamanmyndin Holiday með 15% og svo Christmas Vacation með 13% en niðurstaðan er unnin út frá opinni spurningu. Athygli vekur að Die Hard situr í 5. sæti listans og ævintýramyndirnar byggðar á Hringadróttinssögu eru meðal topp tíu, en þær voru allar frumsýndar á milli jóla og nýárs og ljóst að áhorf á þær hefur sterka tengingu við jólatímabilið.
Í tengslum við könnunina hefur fólki líka boðist að tilnefna málefni sem stendur því nærri til styrkúthlutunar. Að þessu sinni hlýtur Ljósið styrk upp á eina milljón króna úr styrktarsjóði ELKO í nóvember.


COMMENTS