Jólatorgið opnar á ný – opið fyrir umsóknir söluaðila

Jólatorgið opnar á ný – opið fyrir umsóknir söluaðila

Jólatorgið á Ráðhústorgi verður opnað í annað sinn laugardaginn 29. nóvember. Opnað hefur verið fyrir umsóknir söluaðila sem vilja tryggja sér pláss í jólahúsunum, en umsóknarfrestur er til og með 14. október. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar sem má lesa hér að neðan.

Á Jólatorginu verða skreytt hús þar sem boðið verður upp á fjölbreyttan varning sem tengist jólunum með einum eða öðrum hætti. Sérstök áhersla verður lögð á gæðavörur, hvort sem um er að ræða mat, drykki, handverk eða aðrar hátíðartengdar vörur. Markmiðið er að skapa lifandi og notalega stemningu þar sem gestir geta smakkað, lyktað og notið jólaandans.

Söluaðilum er bent á að sækja um pláss í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Fjölbreytni í vöruúrvali verður lykilatriði við val á söluaðilum. Torgið verður opið allar helgar fram að jólum, frá klukkan 15 til 18.

Allar upplýsingar um Jólatorgið má finna á www.jolatorg.is.

COMMENTS