Kona hefur verið dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að valda umferðarslysi á Borgarbraut á Akureyri á síðasta ári. Auk þess mun hún þurfa að greiða yfir 130 þúsund krónur í sakarkostnað. Konan mun ekki þurfa að sitja inni haldi hún skilorð næstu tvö árin. Fjallað er um málið á vef RÚV.
Konan var dæmd fyrir líkamsmeiðingar á gáleysi þar sem hún keyrði of hratt miðað við aðstæður og var á sumardekkjum. Konan missti stjórn á bíl sínum sem rann yfir umferðareyju og lenti á öðrum bíl. Ökumaður hins bílsins brotnaði á vinstri úlnlið.
Konan var sakfelld fyrir brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum, nánar tiltekið reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Konan játaði sök fyrir dómi og hafði fram að þessu hreinan sakarferil.


COMMENTS