Nýverið kom fram í fréttum að samkvæmt könnun Maskínu segja 59% þjóðarinnar pylsa í stað pulsa. Áhugavert er að sjá að skv. könnuninni segja um 90% Norðlendinga pylsa, sem merkir það að einhvers staðar á vappi eru “Sunnlendingar” í dulargervi sem innfæddir.
Við Norðlendingar þurfum að standa vörð um pylsuna, okkar útgáfu þar að segja. Rauðkál á þær allar! Þykir þér kokteilsósa vond á bragðið? Afskaplega leiðinlegt fyrir þig, því hún er orðin skylda á pylsu með öllu. Ertu að passa línurnar? Því miður ertu tilneyddur til þess að setja franskar á pylsuna.
Af hverju hefur enginn útbúið pylsu sem sameinar alla eiginleika þeirrar norðlensku –
Pylsa með rauðkáli, kogga og bearnaise sósu, frönskum og haltu kjafti.
Nú er ekki langt síðan Einni með öllu lauk á Akureyri og enn og aftur var hátíðin svo að ekki var minnst á pylsu. Hvenær verður bólugröfnum unglingi troðið í pylsubúning og hann látinn skemmta gestum og gangandi meðan hann er með þrjá lagerbjóra í kerfinu og nikótínpúða í vörinni? Hvenær verður matreiðslukeppni um hver býr til bestu pylsuna OG hvenær fáum við frægustu pylsuátskeppendur heims, Joey Chestnut og Takeru Kobayashi, á svið til þess að keppa á íslenskri grundu, akureyrskri grundu!?
Samkvæmt SS, innihalda pylsur meira af próteini heldur en skyr eða um 13% af pylsunni, sömuleiðis er 99% af henni náttúruleg efni og minna af fitu heldur en í hamborgara eða um 17% á móti 20-25%. Gerið hvað yður þóknist með þessar upplýsingar.
Vér biðjum þig, Drottinn, að blessa þessa pylsu,
þú birtir oss syndugum mátt þinn á jörð.
Lát pylsuna rísa, veg þeim öllum vísa,
er villir fóru leið, hafa týnt sinni hjörð.
Þú leiðir oss, Drottinn, að pylsunum hreinu,
þú ljósið þitt kveikir við himnanna stól.
Um tíma þó syrti, þá brátt aftur birtir,
þú breiðir út þinn faðm og veitir kogganum skjól.
Vér flytjum þér pylsur í brauði, þú líknar og græðir
og léttir oss göngu í stormanna klið.
Frá ánauð og helsi gef hjörð þinni pylsufrelsi,
þín hjálp er jafnan nær! Ó, Guð, veit oss gelgjufæði.
Veit oss þitt gelgjufæði!
(Afbakaður) texti eftir Óskar Ingimarsson


COMMENTS