Kristín Hólm ráðin í nýtt þjálfarateymi sænska landsliðsins í fótbolta

Kristín Hólm ráðin í nýtt þjálfarateymi sænska landsliðsins í fótbolta

Akureyringurinn Kristín Hólm Geirsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá kvennalandsliði Svíþjóðar í fótbolta. Kristín verður hluti af nýju þjálfarateymi liðsins og hún segist spennt fyrir verkefninu.

Tony Gustavsson tók við sænska landsliðinu í sumar þegar Peter Gerhardsson hætti sem þjálfari. Kristín verður í hlutverki frammistöðustjóra (performance manager) í þjálfarateymi hans.

„Þetta er mjög spennandi staða þar sem ég fæ að blanda saman náminu mínu í Sport Science og styrktar- og þrekþjálfunarhlutverkum. Það er draumur þar sem ég fæ að nördast í GPS og tölum en líka halda í þjálfarahlutverkið í gegnum æfingar, úti á velli og inni í ræktinni,“ segir Kristín í spjalli við Kaffið.is.

Kristín hefur starfað fyrir sænska knattspyrnusambandið frá árinu 2021 og hefur séð um styrktarþjálfun hjá U23 landsliði Svíþjóðar á þeim tíma. Kristín hætti sjálf í fótbolta 20 ára gömul og flutti til Írlands að til þess að læra Sport Coaching & Performance. Eftir námið í Írlandi fór Kristín til Lincoln í Englandi og náði sér í Meistaragráðu í íþróttavísindum.

Meðfram náminu starfaði Kristín hjá knattspyrnuliðinu Kristianstad í Svíþjóð þar sem Elísabet Gunnarsdóttir var þjálfari og eftir námið flutti hún þangað og hóf störf sem styrktarþjálfari liðsins. Kristín talar vel um tíma sinn hjá Kristianstad og kveðst hún hafa lært heilmikið af Elísabetu Gunnarsdóttur. Nú fær hún tækifærið hjá einu af stærstu landsliðum heims þar sem hún mun vinna náið með mörgum af stærstu nöfnum fótboltans.

„Mér líst mjög vel á þetta. Mér finnst gaman að taka að mér nýjar áskoranir og nú þarf ég að fara út fyrir þægindarammann á ný og þar líður mér best. Að vinna með þessum stjörnum er bara spennandi, held ég sé ekki alveg búin að fatta hvað ég er að labba inn í. En ég fíla að vinna með fólki sem veit hvað það vill, spyr mikið að spurningum og krefst þess að ég gefi þeim mitt besta.“


COMMENTS