Landsbankinn og Drift EA hafa gert samstarfssamning sem miðar að því að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf á Íslandi með því að styrkja umgjörð, ráðgjöf og tengslanet fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Þetta segir í tilkynningu á Facebook síðu DriftEA í dag. Þar segir einnig:
Drift EA er kraftmikil miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar þar sem samfélag, þekking og aðstaða skapa frjóan jarðveg fyrir hugmyndir til að þroskast og vaxa. Með samstarfinu tekur Landsbankinn virkan þátt í uppbyggingu öflugs atvinnulífs, einkum á Norðurlandi.
„Það skiptir okkur miklu máli að fá bakhjarla sem hafa skýra sýn á mikilvægi nýsköpunar fyrir samfélagið. Samstarfið við Landsbankann styrkir verulega stuðningsumhverfi frumkvöðla á svæðinu og eykur möguleika okkar til að tengja saman hugmyndir, fjármagn og þekkingu,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Drift EA.
Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á að vera virkur þátttakandi í atvinnulífi og samfélagi um allt land, segir í tilkynningunni. „Sterkt frumkvöðlaumhverfi er lykilforsenda farsællar framtíðar á Íslandi. Með samstarfinu við Drift EA vill Landsbankinn styðja við nýsköpun með þekkingu, ráðgjöf og fjármálainnviðum sem hjálpa góðum hugmyndum að verða að raunverulegum fyrirtækjum sem skapa atvinnu og tækifæri. Þannig höfum við jákvæð áhrif á íslenskt samfélag,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.


COMMENTS