Leikfélag VMA mun í vetur setja upp fjölskyldusýninguna Ronju Ræningjadóttur. Þetta var tilkynnt í Gryfjunni í húsnæði skólans í síðustu viku og greint frá á vef skólans.
„Sýningin byggir á sígildri sögu Astridar Lindgren um Ronju, dóttur ræningjahöfðingjans Mattis, sem elst upp í skóginum þar sem hún lærir að þekkja bæði fegurð og hættur náttúrunnar. Sagan fjallar um vináttu, hugrekki og það að fylgja eigin sannfæringu og hefur heillað kynslóðir barna og fullorðinna um allan heim,“ segir á vma.is.
Stjórn Leikfélags VMA skipa þau Helgi Fannar Steinþórsson (formaður), Ásta Ólöf Jónsdóttir (varaformaður), Arney Elva Valgeirsdóttir (markaðsstjóri) og Hartmann Völundur Tryggvason (fjármálastjóri).
Á morgun, 11. nóvember, verður kynningarfundur í skólanum fyrir þau sem hafa áhuga að koma að sýningunni og leikprufur verða næstkomandi fimmtudag. Stefnt er á frumsýningu þann 15. febrúar 2016.
Leikstjóri sýningarinnar er Pétur Guðjónsson, sem starfaði við VMA í rúman áratug, meðal annars sem viðburðastjóri. Hann þekkir vel til leiklistarstarfsins í VMA enda hefur hann áður leikstýrt fjórum uppfærslum Leikfélagsins: Tjaldinu (2013), Bjart með köflum (2016), Ávaxtakörfunni (2018) og hinum víðfræga söngleik Grís (2021).
Nánari upplýsingar má finna á vef VMA með því að smella hér.


COMMENTS