Logi Már Einarsson menningar, nýsköpunar- og háskólaráðherra , Halla Jónsdóttir aðstoðarmaður ráðherra og Baldur Þórir Guðmundsson sérfræðingur litu í heimsókn í Hof í vikunni til að kynna sér starfsemi Menningarfélags Akureyrar. Eva Hrund, framkvæmdastjóri Menningarfélagsins, Bergur Þór, leikhússtjóri og Þorvaldur Bjarni, tónlistarstjóri sem tóku á móti þeim og leiddu þau um Menningar- og ráðstefnuhúsið Hof. Ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins fékk þar kynningu á þeim fjölbreyttu verkefnum sem heyra undir starfsemina.
Á starfsárinu verða sett upp 14 tónlistar- og leikverk, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi. Auk þess eru á fjórða tug tónlistarviðburða haldnir í Hofi frá haustdögum til áramóta. Ásamt því er fjöldi funda, ráðstefna og viðburða haldið vikulega í sölum og fundarrýmum Hofs.
Næstu helgi eru tvær frumsýningar hjá Menningarfélaginu þegar Leikfélag Akureyrar frumsýnir Elskan, er ég heima? Auk þess setur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands upp Söguna af Dátanum í samstarfi við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Stórskotalið söngvara munu einnig heiðra hinn dáða leikara Jóhann Sigurðsson er farið verður yfir 44 ára feril hans sem leikara.
„Við slíka upptalningu er vel hægt að sjá að hjá Menningarfélagi Akureyrar er öflugur sköpunarkraftur og dýrmætur mannauður sem hefur stórtæk áhrif á menningu á Norðurlandi. Menningarfélagið hefur lengi bent á að framlag ríkisins til menningarmála sé hlutfallslega mun lægra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því er bæði ánægjulegt og mikilvægt að ráðamenn sæki Menningarfélag Akureyrar heim og kynni sér starfsemi þess,“ segir í tilkynningu frá MAk.


COMMENTS