Majó POP-UP á Hótel Vesturlandi

Majó POP-UP á Hótel Vesturlandi

Næstkomandi laugardag verður veitingastaðurinn Majó með sérstakt Pop-Up kvöld á Hótel Vesturlandi í Borgarnesi. Majó er óvenjulegur veitingastaður rekinn í elsta húsi Akureyrar, Laxdalshúsi, þar sem sushi-meistarinn Magnús Jón Magnússon hefur skapað sér nafn fyrir vandaðan mat og einstaka stemningu.

Það sem gerir Majó einstakan er að staðurinn er aðeins opinn nokkrum sinnum í mánuði – annað hvort fyrir brottnámsbakka eða opið í sal. Einnig er tekið á móti hópum í kvöldverði eða á sushi-námskeið. Majó einblínir á sushi og japanska matargerð, þar sem Magnús Jón leiðir línuna með ástríðu fyrir matargerð, handverki og japanskri nákvæmni.

„Við höfum verið með POP-UP veitingar á ýmsum stöðum á landinu, meðal annars á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Húsavík og í Reykjavík. Okkur hlakkar mikið til að bæta Borgarnesi á POP-UP listann og mæta á Hótel Vesturland til að kynna staðinn okkar og sushi fyrir heimamönnum ásamt gestum og gangandi,“ segir í tilkynningu frá Majó.

Hótel Vesturland býður upp á tilboð í tilefni kvöldsins, þar sem venjulegt herbergi fyrir tvo með morgunmat og aðgangi að spa kostar 24.900 krónur.

„Hægt er að fylgjast með okkur á helstu samfélagsmiðlum, þar sem við munum kynna nánar matseðilinn sem verður í boði þann 25. október. Þetta er frábært tækifæri til að hóa saman vinahópnum, bjóða makanum í dekur eða einfaldlega njóta kvölds í góðum anda. Við hlökkum til að sjá sem flesta á Hótel Vesturlandi,“ segir í tilkynningu Majó.

Facebook viðburður.

COMMENTS