Annað Tólf tóna kortér vetrarins fer fram í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 8. nóvember næstkomandi. Tveir fimmtán mínútna langir örtónleikar verða haldnir, sá fyrri klukkan 15:00 og sá seinni klukkan 16:00.
Á tónleikunum mun tónlistarfólkið Marteinn J. Ingvarsson Lazarz og Sophia Fedorovych frumflytja tónverkið LEÇON DE TÉNÈBRES – MYRKRALESTUR, harmljóð fyrir tvær fiðlur og þrjá hluti, eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. Aðgangur er ókeypis.
Frekari upplýsingar má finna um viðburðinn á viðburðardagatali Akureyrabæjar með því að smella hér. Þar er listafólkinu og tónleikunum lýst á þennan máta:
[Marteinn, Sophia og Arnbjörg] búa öll þrjú og starfa á Akureyri sem músíkantar og kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri. Tónleikarnir eru við hæfi tónlistarþyrsts og hljóðaforvitins fólks á öllum aldri, tónlistarvönu sem -óvönu. Einnig eru þeir mjög við hæfi myndlistarþyrtra gesta: aðgangur að safninu er ókeypis á meðan TÓLF TÓNA KORTÉRIÐ stendur yfir.
Tólf tóna kortérið er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Sóknaráætlunar Norðurlands Eystra, Akureyrarbæjar og Menningarsjóðs FÍH.


COMMENTS