Mikil ánægja með kennslu á SAk – viðurkenningar veittar fyrir framúrskarandi klíníska kennslu

Mikil ánægja með kennslu á SAk – viðurkenningar veittar fyrir framúrskarandi klíníska kennslu

Á undanförnum árum hefur kennsla á Sjúkrahúsinu á Akureyri hlotið afar jákvæðar umsagnir frá nemendum. Nemendur lýsa hvetjandi og lærdómsríku umhverfi þar sem fjölbreytt námstækifæri eru í boði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Sjúkrahússins á Akureyri. Árlega eru veittar viðurkenningar fyrir klíníska kennslu á SAk en niðurstöðurnar byggja á könnunum sem mennta- og vísindadeild sendir nemendum að loknu verknámi á sjúkrahúsinu.

Það er okkur á mennta- og vísindadeild mikil ánægja að sjá hversu vel nemendur tala um kennsluna hér á sjúkrahúsinu. Þetta er vitnisburður um það mikla og metnaðarfulla starf sem starfsfólk sjúkrahússins leggur í að leiðbeina og styðja framtíðarheilbrigðisstarfsfólk,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk, á heimasíðu sjúkrahússins. 

Í ár hlutu tvær deildir sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi klíníska kennslu: 

  • Lyflækningadeild – fyrir kennslu hjúkrunarnema 
  • Svæfinga- og gjörgæsludeild – fyrir kennslu læknanema og unglækna 

Auk þess voru veittar einstaklingsviðurkenningar til starfsfólks sem hefur skarað fram úr í klínískri kennslu: 

  • Gunnar Þór Gunnarsson, hjartalæknir og dósent við læknadeild HÍ – fyrir framúrskarandi kennslu læknanema 
  • María Ásgeirsdóttir, svæfingarhjúkrunarfræðingur – fyrir framúrskarandi kennslu hjúkrunarnema 
  • Oddný Jóhanna Zoponíasdóttir, sjúkraliði á skurðlækningadeild – fyrir framúrskarandi kennslu sjúkraliðanema 

Mennta- og vísindadeildin vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem leggja sig fram við kennslu og stuðning við nemendur – bæði þeirra sem kenna formlega og annarra sem taka þátt í móttöku og leiðsögn. Þessi samvinna skiptir sköpum fyrir gæði klínískrar kennslu og jákvæða upplifun nemenda. 

COMMENTS