Margir eru með ákveðna hugmynd um hvernig eigi að lifa lífinu. Það má segja að við séum með ákveðna formúlu sem eigi að fylgja. Klára stúdentspróf, ferðast um heiminn, fara í háskóla, byrja í sambandi, eignast börn, kaupa hús, gifta sig og finna draumavinnuna. Það eru ákveðin box sem við viljum tikka í af því þá upplifum við samþykki í samfélaginu.
Vandamálið við þessa formúlu er að það hentar ekki öllum að fylgja henni. Samt sem áður gerir samfélagið ráð fyrir að allir ætli að fylgja henni. Við erum sífellt að spyrja leiðandi spurninga sem gefa til kynna að við eigum að taka ákveðin skref í lífinu. Hvað ætlar þú að læra að loknu stúdentsprófi? Hvenær ætlið þið að koma með börn? Hvenær á svo að gifta sig? Samfélagið er alltaf einu skrefi á undan okkur og beinir athyglinni að því sem við ættum að gera næst. En hvað með þá sem vilja ekki fara í háskóla eða eignast börn? Eru þeir minna verðugir? Nei, við þurfum að skapa samfélag þar sem hver og einn getur farið sína leið án þess að vera litinn hornauga.
Móðir mín segir oft við mig að maður eigi að lifa lífinu fyrir sjálfan sig. Ekki fara í háskóla til að geta birt útskriftarmynd á Instagram. Ekki eignast barn af því að frænka þín er að hvetja þig til þess. Ekki samþykkja vinnu sem þú hefur ekki áhuga á bara af því að hún þykir „flott“. Þú ert aðalpersónan í þínu lífi og það er mikilvægt að þú sért sáttur við hlutverkið þitt. Gerðu nákvæmlega það sem þig langar og þá fyrst ertu fær um að njóta lífsins.
Ástæðan fyrir þessum pistli er að mér hefur persónulega mistekist að fylgja formúlu lífsins. Vegna veikinda hef ég ekki náð að fara eftir ákveðnum skrefum sem margir, ef ekki flestir, taka og þar af leiðandi hef ég upplifað mig sem misheppnaða. En það er rétt hjá móður minni, lífið snýst ekki um að gera öðrum til geðs. Þú átt ekki að eyða tíma og orku í eitthvað sem aðrir vilja að þú gerir. Lífið er alltof stutt til þess. Þannig ég hvet þig kæri lesandi til að taka í taumana og lifa lífinu nákvæmlega eins og þú vilt. Sama hvað aðrir segja.
*You are the writer of your own story*


COMMENTS