Í morgun var undirritaður samningur Minjasafnsins á Akureyri og Akureyrarbæjar um að Minjasafnið hafi umsjón með rekstri og faglegu starfi skáldahúsanna Davíðshúss og Nonnahúss fyrir hönd sveitarfélagsins til ársins 2028. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins í dag.
„Með samningnum er framlengt heilladrjúgt og gott samstarf Akureyrarbæjar og Minjasafnsins,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Minjasafnið mun hafa umsjón með Davíðshúsi, bæði safninu um Davíðs Stefánsson á efri hæð sem og rithöfunda- og fræðimannaíbúð á neðri hæð. Almennur rekstrarkostnaður hússins alls, s.s. rafmagn, hiti og sorphirðugjöld, verður greiddur af Akureyrarbæ. Með sama hætti annast Minjasafnið rekstur Nonnahúss.
Að auki tekur Minjasafnið að sér faglegt hlutverk í Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar og er það fólgið í að hafa umsjón og eftirlit með safngripum sem tengjast sögu Matthíasar og eru á skrifstofu hans á 1. hæð hússins.
Ítarlegri upplýsingar um samninginn og hlutverk Minjasafnsins má nálgast hér.


COMMENTS