Í lok apríl voru haldnir Vorleikar í Hlíðarskóla á Akureyri. Um að ræða árlegan viðburð í skólanum sem hefur skipað fastan sess. Nemendur keppa í óhefðbundnum þrautum þar sem reynir á mismunandi færniþætti og heppni. Vorleikarnir heppnuðust mjög vel og enduðu á Áheitahlaupi nemenda og starfsfólks. Áheitahlaupið fer þannig fram að í aðdraganda hlaupsins ganga nemendur á milli starfsfólks og biðja um áheit fyrir hverja ferð sem þeir hyggjast ganga eða hlaupa upp heimreiðina að skólanum. Einnig söfnuðu nokkrir nemendur áheitum heima fyrir, meðal foreldra og annarra aðstendenda.
Áheitasöfnun gekk vel og nemendur stóðu sig einnig virkilega vel í hlaupinu og náðu að safna samtals 225.400 krónum. Að þessu sinni ákváðu nemendur að styrkja ADHD samtökin og afhentu styrkinn 28. maí síðastliðinn.


COMMENTS