Nútímaleg sjoppa í miðbænum

Nútímaleg sjoppa í miðbænum

Akureyringurinn Aðalgeir Axelsson er einn af eigendum netverslunarinnar Kalt og Gott sem opnað hefur sjoppu við Skipagötu 7 í miðbæ Akureyrar. Kalt og Gott er netverslun sem selur áfengi og aðrar vörur í heimsendingu.

Kalt og gott er er til húsa í miðbæ Akureyrar þar sem hægt er að sækja vörur en einungis er hægt að leggja inn pantanir á netinu. Aðalgeir segir að mikil vöntun hafi verið á sjoppu í miðbænum.

„Svo er vínbúðin náttúrulega farin uppeftir þannig við hugsuðum að það væri tilvalið fyrir okkur að opna hér og bjóða upp á þessa þjónustu í miðbænum.“

Aðspurður hvort það sé ekkert vandamál að einungis sé hægt að versla áfengi í sjoppinu á netinu segir hann að það hafi gengið eins og í sögu hingað til.

„Það hefur ekki verið neitt vandamál. Það kunna flestir á þetta nú til dags en annars hefur fólk verið að koma við í versluninni og fá aðstoð við að panta og það er ekkert mál.“

Aðalgeir segir að þeir félagar muni halda áfram að bæta vöruúrvalið í sjoppunni á næstu vikum en nú sé meðal annars hægt að fá skyr og samlokur sem hann segir að margir hafi beðið um og talað um að hafi verið þörf á í hádeginu og í millimál.

Þar sem verslunin selur áfengi segir Aðalgeir að strangir skilmálar séu á aldurstakmörkunum. Bæði þurfi að staðfesta aldur á heimasíðunni við pöntun og við afhendingu.

Starfsemi að minnsta kosti tveggja fyrirtækja sem reka netverslun með áfengi á Íslandi er á borði lögreglu en Aðalgeir segir að Kalt og Gott sé innan lagaramma og að eigendur hafi ekki miklar áhyggjur af þeim kærum.

„Þetta hefur farið þrusu vel af stað frá því að við opnuðum í september og sífellt fleiri eru að uppgötva þessa snilldar þjónustu, undantekningalaust afhendum við kúnnum drykkina ískalda. Höfum verið að fá hópa til okkar fyrir veislur af ýmsu tagi og tökum áfram vel á móti svoleiðis. kaltoggott.is er slóðin á heimasíðuna,“ segir Aðalgeir að lokum.

COMMENTS