Ný handbók fyrir unglækna á SAk

Ný handbók fyrir unglækna á SAk

Tveir unglæknar, Kristín Erla Kristjánsdóttir og Daníel Andri Karlsson, hafa undanfarið unnið að umbótaverkefni sem miðar að því að efla nýliðafræðslu og bæta aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum. Afurð verkefnisins er ný handbók fyrir unglækna á SAk, sem nú liggur fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu Sjúkrahússins á Akureyri, SAk, á Facebook.

„Handbókin inniheldur hagnýtar leiðbeiningar og upplýsingar fyrir námslækna sem hefja störf á sjúkrahúsinu. Þar má finna yfirlit yfir verkferla, daglega starfshætti og skipulag á helstu deildum. Einnig eru þar upplýsingar um neyðarsíma, vaktakerfi, rannsóknir, sjúkraflug, skráningarferla og samskiptaflutninga innan spítalans, svo dæmi séu tekin,“ segir í tilkynningu SAk.

„Við vonumst til að handbókin gagnist unglæknum sem eru að hefja störf sem og að handbókin nýtist í daglegu starfi þeirra,“ segja Kristín Erla og Daníel.

Handbókin er dæmi um umbótaverkefni sem getur haft bein áhrif á gæði þjónustunnar. Sjúkrahúsið á Akureyri leggur ríka áherslu á að skapa öflugt námsumhverfi fyrir námslækna og telur útgáfu handbókarinnar mikilvægt framlag í þá átt.

COMMENTS