Ísland Duty Free, sem starfrækir verslanir á Keflavíkurflugvelli, hefur opnað nýja fríhafnarverslun á Akureyrarflugvelli. Verslunin opnaði fimmtudaginn 16. október og er opin fyrir alla komu- og brottfararfarþega sem ferðast í millilandaflugi til og frá Akureyrarflugvelli.
Fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna fara í gegnum Akureyrarflugvöll í hverri viku, enda er flugvallarstarfsemin í örum vexti og framboð á beinu millilandaflugi orðið fjölbreytt. Þrátt fyrir að millilandaflug sé tiltölulega nýr þáttur í starfsemi flugvallarins hafa flugleiðirnar verið afar vel nýttar, bæði af heimamönnum og erlendum ferðamönnum.
„Fríhafnarverslunin hefur verið mjög vinsæl til þessa og horfum við, ásamt heimamönnum, jákvæðum augum til framtíðar þegar kemur að áframhaldandi þróun og uppbyggingu á Akureyrarflugvelli.“ Segir Hanna S. tryggvadóttir hjá Ísland Duty Free
Frá Akureyrarflugvelli eru í boði nokkrar vinsælar flugleiðir yfir haustið og veturinn 2025–2026. Flogið er til London Gatwick, Manchester, Amsterdam og Zurich. Þetta fjölbreytta framboð hefur skapað ný tækifæri fyrir bæði heimamenn og erlenda gesti og styrkt stöðu Akureyrar sem alþjóðlegrar samgöngumiðstöðvar fyrir Norðurland.
Sjá einnig: Beint flug til og frá Norðurlandi í vetur
Opnun verslunarinnar er mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu flugvallarins og þjónustu við farþega og ferðamenn.


COMMENTS