Ný Miðgarðakirkja var vígð í Grímsey í dag. Eldri kirkjan sem bar sama nafn varð eldi að bráð í september árið 2021.
Heimamenn í eyjunni ákvaðu strax að byggja nýja kirkju eftir eldsvoðann og þrátt fyrir að nánast allir framkvæmdaliðir hafi farið fram úr kostnaði síðan tókst það að lokum með styrkjum frá fólki og fyrirtækjum, auk ferðafólks sem hefur lagt verkefninu lið.
Alfreð Garðarsson, sóknarnefndarformaður, segir í fréttatíma RÚV, marga hafa komið að uppbyggingu kirkjunnar og kveðst ævinlega þakklátur.
„Margir sem við þekkjum ekki neitt hafa styrkt okkur um stórar upphæðir og litlar. Fyrirtæki, félagsskapur, litlu kirkjurnar í kringum okkur og ótrúleg velvild. Það verður aldrei fullþakkað,“ sagði Alfreð í kvöldfréttum RÚV í dag.


COMMENTS