Um áramótin tóku nýir eigendur við Jónsabúð á Grenivík. Þau Jón Ingólfsson og Jórlaug Daðadóttir, Jónsi og Systa, hafa selt reksturinn og nýir eigendur eru Erica Rivera og Hreinn Skúli Erhardsson. Búðin verður áfram opin með svipuðu sniði og hefur verið.
„Jónsi og Systa hafa staðið vaktina í áratugi og verður þeim seint fullþakkað fyrir þeirra mikilvæga framlag. Búðin hefur verið kjölfesta í okkar samfélagi og þeirra einstaka þjónustulund, hlýja og léttleiki, jafnt við heimafólk sem gesti Grenivíkur, hefur vegið þungt í að mynda góðan staðarbrag. Við óskum þeim hjónum velfarnaðar til langrar framtíðar,“ segir í tilkynningu á vef Grenivíkur.
„Það er jafnftramt mikið fagnaðarefni að búðin haldi áfram og er þeim hjónum Ericu og Hreini Skúla óskað góðs gengis við reksturinn og íbúar eru hvattir til að sýna búðinni tryggð áfram svo sem verið hefur,“ segir í tilkynningunni.


COMMENTS