Mennta- og barnamálaráðherra hefur skipað nýja fulltrúa í skólanefnd VMA. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vma þar sem segir að í nefndinni séu:
Katrín Sif Árnadóttir, Rósfríð Kristín Áslaugsdóttir og Sveinn Arnarson skipuð án tilnefndingar af ráðherra. Axel Grettisson og Ólöf Inga Andrésdóttir skipuð samkvæmt tilnefningu Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Í skólanefnd eru þrír áheyrnarfulltrúar Hulda Þórey Halldórsdóttir formaður nemendafélagsins Þórdunu, Karen Malmquist fulltrúi kennara og Þorbjörg Ólafsdóttir fulltrúi foreldra. Kosið verður um nýja fulltrúa foreldra og kennara næsta haust.
Skólanefnd hélt sinn fyrsta fund í gær þar sem Sveinn Arnarson kosinn formaður.
Að fundi loknum var tekin mynd af skólanefnd ásamt skólameistara. Hulda Þórey og Katrín Sif voru í fjarfundi.
Skólanefnd starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.


COMMENTS