Nýjar hjólbörur fyrir Hríseyinga í boði Húsasmiðjunnar

Nýjar hjólbörur fyrir Hríseyinga í boði Húsasmiðjunnar

Fyrir allnokkrum árum færði Húsasmiðjan Hríseyingum hjólbörur til sameiginlegra nota sem síðan þá hafa reynst bæði íbúum og öðrum gestum eyjarinnar afar vel við að flytja farangur frá bryggju og heim. Nú var kominn tími á endurnýjun á hjólbörunum og Hríseyingurinn Jóhann Pétur Jóhannson og dóttir hans Dísa, höfðu því samband við Húsasmiðjuna á Akureyri og spurðust fyrir um það hvort þau væru til í að endurtaka góðverk sitt. Húsasmiðjan varð við þeirri ósk og gaf tvær nýjar hjólbörur í þetta sinn.

„Það er alltaf gaman og mikilvægt að geta tekið þátt í nærsamfélagi og hjálpa til. Við hjá Húsasmiðjunni óskum Hríseyingum til hamingju með nýjar hjólbörur og höfum fulla trú á að þær endist jafn vel og lengi og þær fyrri,“ segir Aron Pálsson Rekstrarstjóri á Akureyri. 

„Það gleður mig mikið að þau skyldu enn á ný sýna samfélaginu hér stuðning með því að gefa tvær glænýjar hjólbörur í eyjuna. Sem ferjumaður sé ég hversu mikið hjólbörurnar eru notaðar og þessi gjöf mun án efa koma sér vel,“ segir Jóhann Pétur.

COMMENTS