Á dögunum hlaut Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN, styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu að upphæð 2,5 milljónir vegna kaupa á RetinaRisk búnaði sem gerir HSN kleift að sinna í heimabyggð reglubundinni augnskimun hjá einstaklingum með sykursýki sem þyrftu annars að sækja þjónustuna til Reykjavíkur.
„Þessi styrkur er okkur mjög mikilvægur því stór hluti af starfssvæði HSN er í dreifðri byggð og því þýðingarmikið að stofnunin geti nýtt og tekið þátt í þróun nýrra tæknilausna til að bæta þjónustu við skjólstæðinga,“ segir Árni Kár Torfason, forstöðumaður upplýsingatæknimála hjá HSN á vef HSN.
„Þessi augnskanni, sem og aðrar tækninýjungar, svo sem sálfræðiþjónusta í gegnum myndsímtöl gera skjólstæðingum í dreifðum byggðum kleift að fá sérfræðiaðstoð án langra ferða, auka lífsgæði fólks á ýmsan hátt og hafa þegar skilað verulegum ávinningi til skjólstæðinga og starfsfólks.“
Fyrr á árinu hlaut HSN styrk frá ráðuneytinu til að innleiða Memaxi kerfið á Norðurlandi vestra. Kerfið tengir notendur, fjölskyldur og heilbrigðisstarfsfólk saman. Lausnin eykur öryggi, sjálfstæði og þátttöku notenda og er einnig í notkun í Fjallabyggð. Þá eru um 70 stafrænir lyfjaskammtarar í notkun í heimahjúkrun og á nokkrum heilsugæslustöðvum HSN, sem auka öryggi og lífsgæði skjólstæðinga.
HSN er virkur þátttakandi í Veltek, samstarfsvettvangi um þróun heilbrigðis- og velferðarþjónustu á Norðurlandi. Markmið samstarfsins er að skoða hvernig nýjar tæknilausnir, aukin samvinna á milli sveitarfélaga og einkaaðila, og samþætt þjónusta geta bætt þjónustu við íbúa, gert hana öruggari og skilvirkari, sérstaklega í dreifðum byggðum.


COMMENTS