Októberfest í handverksbrugghúsum á Norðurlandi eystra

Októberfest í handverksbrugghúsum á Norðurlandi eystra

Í ár verður óvenju mikið um októberfest-dýrðir í landshlutanum þar sem Uppbyggingarsjóður SSNE styrkti Tríó Akureyrar og handverksbrugghúsin Segul 67, Bruggsmiðjuna Kalda og Mývatn öl til að halda októberfögnuði hjá hverju brugghúsi fyrir sig. Norðlendingar mega því búast við dirndlum, leðurhosum, þýskum polkum, októberfest snarli og svo auðvitað eðal bjór frá frumkvöðlum beint úr héraði.

Októberfest eru þýsk hefð sem dreifst hefur um allan heim og er víða orðinn holdgervingur uppskeruhátíða. Upphaflega októberfestið var reyndar brúðkaupsveisla krónprinsins Ludwigs af Bæverjalandi og prinsessunnar Theresu af Saxlandi-Hildburghausen – en veislan, sem haldin var 12. október 1810 í München, var svo frábær að hún varð að árlegri hefð. Hefðin þróaðist svo með tímanum út í að verða uppskeruhátíð tengd landbúnaði auk þess sem tímasetningu hátíðarinnar var aðeins breytt því allra veðra var von í október. Nú eru því flestar októberfesthátíðir í Þýskalandi og Austurríki haldnar á tímabilinu frá 15. septeber til fyrsta sunnudags í október. Á Íslandi er náttúrulega hvort eð er aldrei hægt að treysta því að ná góðu veðri til útiveisluhalda og októberfest hátíðir hér dreifast því almennt yfir allt haustið, eða september og október.

Af hverju í ósköpunum ættum við að halda októberfest?

Íslendingar eru hátíðaglatt fólk og það hefur færst í aukana að hér séu innleiddar hefðir annarra landa, þ.e. ef þær gera það að verkum að hægt sé að græða á þeim eða gera sér glaðan dag – og auðvitað helst bæði. Þetta á mjög vel við um októberfest. Þau eru afsökun til að klæðast skemmtilegum búningum (dirndlum, leðurhosum, höttum, blómum og axlaböndum), hlusta á tónlist sem Íslendingar hlusta ekki á dagsdaglega (polka og aðra Úmpah! Úmpah! tónlist) og gæða sér á veigum og annarri matarframleiðslu úr héraði.

Októberfest eru hátíðir fyrir eyru og bragðskyn – enda tónlist og matarlyst frábær blanda!

Ekki er orðið óalgengt að matsölustaðir og barir haldi upp á októberfest á haustin með tilboðum á pylsum, súrkrás og bjór, en októberfest er ekki alvöru októberfest án októberfest tónlistar og auðvitað fátt sem jafnast á við lifandi tónlistarflutning. Tríó Akureyrar skipa Jón Þorsteinn Reynisson, Valmar Väljaots og Erla Dóra Vogler, en þau hafa fengið til liðs við sig hina frábæru Ellu Völu Ármannsdóttur fyrir októberfestin, enda blásturshljóðfæri algjörlega ómissandi við svona tækifæri. Leikið er á harmonikku, fiðlu, gítar, horn, trompet, cornet, blokkflautu, hristur, skeiðar, þríhorn og auðvitað sungið. Tónlistin samanstendur af kokteil hinnar þýsk/austurrísku októberfest tónlistar og laga sem sungin eru á íslenskum réttarböllum. Þannig að þarna er heldur betur eitthvað á ferðinni sem hægt er að dilla sér við og syngja með. Tríó Akureyrar hefur áður staðið að hausthátíðum í samstarfi við kvenfélög á nokkrum stöðum á Norðausturlandi, en áheyrendur bentu á að það vantaði helst smá söngolíu til að fullkomna viðburðina. Bjór er auðvitað orðinn órjúfanlegur hluti októberfesta og ættu þær veigar að ná að smyrja raddbönd viðstaddra.

Á Norðausturlandi búum við svo vel að eiga nokkur úrvals handverksbrugghús sem hafa svo sannarlega fest sig í sessi. Saga þeirra og þróun hinna ýmsu bjórtegunda er spennandi og eflaust margir sem hafa notið þess að fara í bjórkynningar hjá þessum fyrirtækjum. Á októberfestunum munu skiptast á tónlist og kynningar frá viðkomandi brugghúsi, um sína starfsemi, sögu og um mismunandi bjórtegundir. Svo til að auka stemninguna er fólk auðvitað hvatt til að mæta í viðeigandi fatnaði og hver veit nema að verðlaun verði veitt til þeirra sem leggja sig fram í þeim málum.

Takið dagsetningarnar frá!

Októberfestin verða haldin 27. september hjá Segli 67 á Siglufirði, 4. október í Bruggsmiðjunni Kalda á Árskógssandi og 31. október hjá Mývatni öl á Sel-Hóteli, Skútustöðum, en þar verður haldin mikil bjór og matarhátíð alla helgina.

Nánari upplýsingar um viðburðina eru aðgengilegar á facebook síðu Tríós Akureyrar og á heima- eða facebooksíðum Sel-Hótels Mývatns, Seguls 67 og Bruggsmiðjunnar Kalda.

COMMENTS