Hjónin Birgitta Bjarney Svavarsdóttir og Geir Ívarsson hyggjast opna bakarí í heimabæ sínum Húsavík í vor. Birgitta og Geir reka verslunina Garðarshólma og gistingu í Öskjuhúsinu, ásamt fjölskyldu sinni, í bænum. Fjallað er um málið á vef Húsavík.com
Þau vinna að því að standsetja nýtt bakarí í húsnæði sínu í Öskjureitnum á Húsavík sem hýsti áður Víkurraf og raftækjaverslunina Öryggi. Rúmt ár er frá því að Heimabakarí lokaði hinu megin við götuna og Birgitta segir í samtali við Húsavík.com að Húsavík sé þannig staður sem þarf að hafa bakarí í bænum.
Hún segist vilja berjast fyrir líflegum miðbæ á Húsavík og að hún hafi oft leitt hugann að því að opna bakarí síðan Heimabakarí lokaði í september árið 2025.
„Víkurraf var að flytja og húsnæðið laust og því lá beint við að setja þar upp bakarí. Við stefnum að því að opna á vormánuðum, það verður mjög góður salur á neðri hæðinni og hús með mikla sögu,“ segir Birgitta en hægt er að sjá viðtalið við hana í heild á vef Húsavík.com.


COMMENTS