Norðmaðurinn Paul Birger Torgnes var kosinn í stjórn Samherja fiskeldis ehf. á hluthafafundi 12. desember síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja þar sem segir að Paul Birger hafi tekið virkan þátt í norsku fiskeldi í áratugi sem stofnandi og forstjóri Fjord Seafood sem seinna varð eitt af fyrirtækjunum sem mynduðu Mowi, stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi.
Paul Birger hefur verið í stjórn samtaka norskra fiskeldisfélaga og í seinni tíð fjárfestir og stjórnarformaður í norskum fjárfestingarfélögum. Síðustu árin hefur hann verið stjórnarformaður Torghatten Aqua AS, sem er fjárfestingar- og þróunarfélag í meirihluta eigu hans og fjölskyldunnar.
Paul kemur inn i stjórn félagsins í stað Alf-Helge Aarskog sem lést í lok nóvember eftir skammvinn veikindi.
„Alf-Helge Aarskog tók sæti í stjórn Samherja fiskeldis ehf. árið 2022 eftir að hafa gerst hluthafi í félaginu. Hann bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á alþjóðlegu fiskeldi. Með komu Alf-Helge Aarskog í stjórn Samherja fiskeldis ehf. bættist við mikilvæg þekking og stórt tengslanet. Hann tók virkan þátt í stefnumótun á uppbyggingu Samherja fiskeldis ehf. og fyrir það verðum við honum ævarandi þakklát. Fyrir hönd Samherja fiskeldis ehf. þakka ég, af hlýhug og virðingu, Alf-Helge Aarskog fyrir samfylgdina og góðan vinskap til langs tíma. Jafnframt vil ég bjóða velkominn í stjórn félagsins Paul Birger Torgnes, sem hefur mikla þekkingu og reynslu af alþjóðlegu fiskeldi. Við hjá Samherja þekkjum vel til starfa Paul Birger eftir góð kynni, samstarf og samskipti í um tuttugu ár. Það er heiður og viðurkenning fyrir okkur að fá svo reynslumikinn mann í stjórnina, mann sem mun taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem nú stendur yfir á Reykjanesi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Samherja fiskeldis ehf á heimasíðu Samherja.


COMMENTS