Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra, verður með opinn viðtalstíma á Akureyri næstkomandi mánudag, 6. október. Þar gefst öllum áhugasömum færi á að eiga milliliðalaust spjall við ráðherrann um þau fjölmörgu málefni sem eru á borði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.
Viðtalstíminn stendur yfir á milli klukkan 13 og 13:45 í Ráðhúsi Akureyrarbæjar við Geislagötu 9, en ráðherra mun jafnframt heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og funda með kjörnum fulltrúum. Með þessu vill ráðherra styrkja beint samtal við fólk um allt land og um leið tryggja að fjölbreytt sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við stefnumótun ráðuneytisins.
Opni viðtalstíminn á Akureyri er liður í heimsóknaröð menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um landið, en í maí sótti hann Ísafjörð heim.
„Sem ráðherra finnst mér algjörlega nauðsynlegt að heimsækja alla landshluta reglulega og taka stöðuna. Við eigum auðvitað að vinna að blómlegu og skapandi samfélagi um land allt og þurfum þá að þekkja til, hitta fólk og hlusta vel. Þetta eru alltaf fróðlegar og ekki síður skemmtilegar heimsóknir,“ segir Logi Einarsson.
Mynd/Bent Marinósson


COMMENTS