Dagana 1. og 2. október næstkomandi fer ráðstefnan Löggæsla og samfélagið fram við Háskólann á Akureyri. Það er Rannsóknarsetur í lögreglufræði við HA sem stendur að ráðstefnunni. Löggæsla og samfélagið er vettvangur þar sem fag- og fræðafólk reifar málefni sem tengjast löggæslu með einum eða öðrum hætti.
Spennulækkun
Þema ráðstefnunnar í ár er spennulækkun (e. de-escalation). „Spennulækkun vísar til aðferða til að lægja öldurnar í spennuþrungnum aðstæðum með sem minnstri valdbeitingu. Lögreglan hérlendis sem erlendis hefur lagt aukna áherslu á spennulækkandi aðferðir í umbótavinnu sinni undanfarin ár og það er ærin ástæða til að fræðast meira um þessa nálgun,“ útskýrir Guðmundur Oddsson, prófessor við Félagsvísindadeild og einn skipuleggjenda ráðstefnunnar.
Lykilfyrirlesarar endurspegla þema ráðstefnunnar. Í ár eru lykilfyrirlesararnir tveir:
- Mikael Emsing, dósent við Södertörn háskóla og rannsakandi við Háskólann í Umeå
- Juha-Matti-Huhta, forstöðumaður rannsókna, þróunar og nýsköpunar hjá Finnska lögregluháskólanum
Erindi sem snerta á samfélagsmálum líðandi stundar
Dagskrá ráðstefnunnar samanstendur af fjölmörgum og fjölbreyttum erindum sem öll eiga það sameiginlegt að snerta á samfélagsmálum líðandi stundar og falla vel að þema ráðstefnunnar. Þar má nefna sem dæmi:
- Viðbúnaður á sviði löggæslu, innanlandsöryggis og almannavarna
- Kynferðisleg áreitni innan lögreglunnar: eru öll jafn útsett?
- Innleiðing rafvarnarvopna og valdbeiting lögreglu
- Ofbeldi barna í garð foreldra
Fimmtíu erindi eru á dagskrá og geta áhugasöm nálgast dagskrána í heild sinni hér.
Löggæsla og samfélagið í átta ár
Löggæsla og samfélagið hefur vaxið og dafnað og er fyrir löngu orðinn fastur liður á hverju hausti. Ráðstefnan er alþjóðleg en hátt í helmingur fyrirlesara hvert ár kemur erlendis frá. Starfsfólk lögreglu tekur virkan þátt í ráðstefnunni og er hún aukinheldur partur af staðarlotu lögreglunema. Góður rómur er gerður að ráðstefnunni hérlendis sem erlendis en ráðstefnan fer einungis fram í húsnæði háskólans en ekki er streymt frá henni. „Ráðstefnan er mikilvæg til að byggja upp lögreglufræðisamfélag hérlendis, styðja við samstarf stofnanana réttarvörslukerfisins og annarra hlutaðeigandi, efla lögreglufræðinám á háskólastigi og sem liður í stöðugri fagvæðingu lögreglunnar,“ segir Guðmundur. Ráðstefnan er nokkurs konar uppskeruhátíð þar sem allt áhugafólk um löggæslu í víðri merkingu ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.


COMMENTS