Rafrænt lyfjafyrirmælakerfi tekið í notkun á bráðamóttöku SAkÁfanganum var fagnað á bráðamóttöku SAk í kaffitíma. Mynd: SAk.is

Rafrænt lyfjafyrirmælakerfi tekið í notkun á bráðamóttöku SAk

Búið er að gangsetja rafrænt lyfjafyrirmæla- og lyfjaskráningarkerfi, Therapy, á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri (BMT).

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Sjúkrahússins á Akureyri í dag þar sem segir að tilgangur kerfisins sé að bæta lyfjaöryggi sjúklinga og gera lyfjaskráningu skilvirkari þannig að lyf ávísuð í Therapy fylgi sjúklingi, óháð deildinni sem hann er á.

„Þetta er stór áfangi í stafrænum umbótum sjúkrahússins og mun bæði auka lyfjaöryggi sjúklinga og einfalda vinnu starfsfólks,“ segir Jóna Valdís Ólafsdóttir, deildarstjóri lyfjaþjónustu, á vef SAk.

Deildarstjóri bráðamóttökunnar, Kristín Ó. Ragnarsdóttir segir innleiðinguna ákaflega jákvæða: „Þetta er mjög jákvætt skref fyrir okkur á Bráðamóttökunni og í takt við nútímakröfur að ávísa ekki lengur lyfjum á pappír.“ 

Ítarleg umfjöllun á vef SAk.

COMMENTS