Ragnar Hólm Ragnarsson, myndlistarmaður, hefur gefið Sjúkrahúsinu á Akureyri, SAk, olíumálverk og vatnslitamynd. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Sjúkrahússins á Akureyri.
„Sólveig Hulda, deildarstjóra lyflækningadeildar, kom að máli við mig á förnum vegi og spurði hvort að ég ætti málverk til að lífga aðeins upp á ný líknarrými á SAk. Mér þótti það bara heiður ef myndir eftir mig gætu orðið til þess að fá fólk í erfiðri stöðu til að gleyma þrautum sínum og ef til vill hjálpa því að dreyma um betri daga,“ segir Ragnar í samtali við heimasíðu SAk.
„Sjálfur er ég orðinn munaðarlaus á gamalsaldri og má segja að þessi litla gjöf sé til minningar um foreldra mína sem kvöddu þessa jarðvist fyrir fáeinum árum. Þetta er annars vegar olíumálverk sem átti að verða abstrakt en breyttist óvænt í blómvönd sem ég síðan útfærði í mildum litum. Hins vegar er þarna vatnslitamynd sem ég málaði sumarið 2024 við mynni Svarfaðardals. Ég vona að þessi verk eigi eftir að sóma sér vel í eigu Sjúkrahússins á Akureyri.“
„Við höfum útbúið líknarstofu fyrir sjúklinga og vildum að rýmið myndi halda vel utan um fólk. Listin getur oft hughreyst og huggað með einstökum hætti og ég var alveg viss um að verk eftir Ragnar Hólm gætu sómt sér vel. Þess vegna ákvað ég að spyrja hann og er himinsæl með að hann skyldi taka jákvætt í þessa bón og gefa okkur þessar fallegu myndir,“ segir Sólveig Hulda, deildarstjóri lyflækningadeildar.


COMMENTS