Mannkennd er ný bókaútgáfa sem gefur út barnabækur um fötlunarfjölbreytileika. Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, stofnandi bókaútgáfunnar, segir í samtali við Kaffið.is að hugmyndin af stofnun Mannkenndar hafi verið hluti af réttindabaráttu hennar fyrir dóttur sína.
„Hún er mikill lestrarhestur og fór að spyrja hvort það væru til bækur um krakka með sjaldgæfa sjúkdóma, flogaveiki eða einhverfu eins og hún. Mikill skortur er á barnabókum sem sýnir líf fatlaðra barna í jákvæðu ljósi, styrkleika þeirra og hæfni en einnig áskoranir,“ segir Ingibjörg.
Mikilvægt að öll börn geti speglað sig í sögupersónum bóka
Mannkennd er fyrsta og eina bókaútgáfan sem sérhæfir sig í útgáfu hágæða barnabóka um fötlunarfjölbreytileika. Ingibjörg segir að markmiðið sé að skapa fjölbreytta bókaflóru með áherslu á að fagna fjölbreytileikanum og rjúfa staðalmyndir um fatlaða, bjóða upp á persónur og sögur sem fötluð börn geta samsamað sig við og ófatlaðir lesendur geta skilið og lært af.
„Ég fékk smá sjokk þegar ég fór að leita og fann mjög fáar bækur og í misjöfnum gæðum. Hins vegar fann ég mikinn fjölda af erlendum barnabókum um fötlunarfjölbreytileika á Amazon og pantaði nokkrar og ætlaði að líma yfir íslenskan texta. Ég fór svo að hugsa að það væru fleiri börn sem myndu hafa not af slíkum bókum og ákvað því að taka réttindabaráttuna fyrir dóttur minni á næsta stig og gera það að aðalstarfi sem fleiri gætu notið góðs af,“ segir Ingibjörg.
„Það er mikilvægt að öll börn geti speglað sig í sögupersónum bóka þar sem það hefur áhrif á sjálfsmynd þeirra og að sama skapi er líka mikilvægt að ófötluð börn fái innsýn inn í reynsluheim fatlaðra barna. Útgáfa barnabóka fyrir fötluð börn eflir fjölbreytta barnamenningu þar sem slíkar bækur hafa hingað til verið af skornum skammti. Við þurfum að efla sýnileika og aðgengi barna, foreldra og skólasamfélagsins að bókum sem sýna líf og reynsluheim fatlaðra barna á uppbyggilegan og mannréttindamiðaðan hátt.“
Hún segir að reynsluheimur fatlaðra barna sé menningalegt innihald sem hefur hingað til verið óaðgengilegt eða nánast ósýnilegt hér á landi. Verkefnið muni því bæta við nýju og áður vannýttu sjónarhorni í íslenskar barnabókmenntir.
Út fyrir þægindarammann
Ingibjörg segir að verkefnið setji hana töluvert út fyrir sinn þægindaramma og að hún sé vön öðru vinnuumhverfi. Hún er með yfir 15 ára reynslu í mannauðsmálum og stjórnun sem mannauðsstjóri hér á landi og í Þýskalandi.
„Ég er ein að vinna að þessu verkefni en maðurinn minn er minn helsti ráðgjafi ásamt því að vera Excel rammi fyrir mig. Síðustu 11 ár hafa litast mikið af réttlætisbaráttu fyrir dóttur mína sem er langveik og með fötlun. Það var búið að blunda í mér í nokkurn tíma að gera eitthvað annað en ég hafði unnið við síðustu 15 ár og nýta ástríðu mína og réttlætiskennd til góðs. Málefni fatlaðra barna hafa staðið mér nærri síðustu ár og því beindist hugur minn þá leið.“
Ingibjörg býr á Siglufirði og er með vinnuaðstöðu á heimili sínu. Hún kemur tvisvar í viku til Akureyrar og vinnur á skrifstofum DriftEA. Hún segir að þátttaka í Slipptöku DriftEA hafi hjálpað til að gera hugmyndina að veruleika.
„Þátttaka í Slippnum var það sem ég þurfti til að móta hugmyndina enn betur og gera að veruleika. Mannkennd var svo valið í Hlunninn sem var mikill heiður og færir mér aukin tækifæri ásamt frábærri hvatningu, aðhaldi og stuðningi. Það er mikill samhugur og hvatning meðal frumkvöðlanna í Hlunninum sem gefur manni aukið sjálfstraust og drifkraft að halda á ótrauð áfram,“ segir Ingibjörg.
Fræðsla til sveitarfélaga á Norðurlandi
Ingibjörg stefnir á að gefa út fyrstu þýddu barnabókina í samstarfi við Einhverjusamtökin a næsta ári. Sveitarfélög á Norðurlandi sem kaupa bækur frá Mannkennd fá einnig fræðslu um einhverfu fyrir kennara og starfsfólk.
„Þegar bókin verður að veruleika mun ég fylgja bókinni eftir með fræðslu til sveitarfélaga á Norðurlandi sem kaupa bækur af Mannkennd, þannig leggjum við okkar að mörkum að stuðla að aukinni vitund og jákvæðari viðhorfum um fötluna ásamt innleiðingu á auknum fjölbreytileika,“ segir Ingibjörg.
Upphafi að einhverju stærra
Ingibjörg segist lengi hafa gengið með þá hugmynd í maganum að láta gott af sér leiða fyrir fjölskyldur í svipuðum sporum.
„Lífið verður örðuvísi en maður hélt, oft brattari brekkur og stormur í fangið en hins vegar gefur það manni meira auðmýkt og þakklæti fyrir litlu sigrunum. Reynslan hefur því miður sýnt okkur að sú barátta sem maður fer í fyrir barnið sitt í kerfinu og maður vonar að ryðji brautina fyrir öðrum fjölskyldu og verði fordæmisgefandi, sé ekki raunin. Það eflir mig enn frekar í því verkefni sem Mannkennd stendur fyrir.“
„Ég er spennt að sjá þetta verkefni vaxa og tel að þetta sé upphafið að einhverju stærra,“ segir Ingibjörg að lokum.


COMMENTS