Sandra María Jessen semur við 1. FC Köln

Sandra María Jessen semur við 1. FC Köln

Stjórn Þórs/KA hefur komist að samkomulagi við þýska knattspyrnufélagið 1. FC Köln, sem leikur í Bundesligunni, efstu deild þar í landi, um félagaskipti Söndru Maríu Jessen til þýska liðsins. Þetta kemur fram í fréttatilkyningu frá Þór/KA í dag.

„Sandra María hefur því spilað sinn síðasta leik fyrir Þór/KA í bili og færir félagið henni hér með bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag til liðsins, félagsins og knattspyrnunnar á Akureyri. Samningur Söndru Maríu við Kölnarliðið er til tveggja ára, eða út júní 2027, að því er fram kemur í tilkynningu 1. FC Köln á Instagram,“ segir á vef Þór/KA.

Ómetanlegt framlag innan og utan vallar

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaðurs stjórnar Þórs/KA, segir stjórn félagsins afar þakkláta fyrir framlag Söndru Maríu og fjölskyldu hennar til félagsins.

„Sandra María hefur verið lykilleikmaður Þórs/KA í gegnum árin og hefur framlag hennar verið ómetanlegt, bæði innan vallar og utan. Hún hefur verið fyrirmynd fyrir liðsfélaga og yngri leikmenn félagsins með fagmennsku, baráttuvilja og leiðtogahæfileikum og stjórn Þórs/KA er afar þakklát fyrir hennar framlag og fjölskyldu hennar,“ segir Dóra Sif og heldur áfram: „Á sama tíma og við munum sakna hennar þá er þetta jafnframt hvatning fyrir liðið okkar sem heldur áfram hér heima og sannar að með vinnusemi, hjarta og trú á sjálfan sig er allt hægt. Draumar rætast og baráttan á Akureyri með Þór/KA getur leitt leikmenn alla leið á stóra sviðið.“

Nánar má lesa um félagskiptin á heimasíðu Þór/KA með því að smella hér.

COMMENTS