Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri, hlaut verðlaun ÖBÍ réttindasamtaka fyrir framúrskarandi doktorsritgerð í fötlunarfræðum. Þetta er í fyrsta sinn sem ÖBÍ veitir verðlaun fyrir lokaverkefni til meistara- og doktorsgráðu með áherslu á fatlað fólk og/eða fötlunarfræði, eftir tilnefningar frá öllum háskólum landsins. Verðlaunin voru afhent á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember í Mannréttindahúsinu. Greint er frá á vef Háskóans á Akureyri.
Doktorsritgerð Söru ber heitið „Glíma seinfærra foreldra við kerfislægar hindranir út frá réttindamiðaðri nálgun“ (e. Parents with Intellectual Disabilities Negotiating Systemic Challenges through a Rights Based Approach). Í umsögn dómnefndar kemur fram að rannsóknin varpi ljósi á stöðu seinfærra foreldra sem mæta kerfislægum hindrunum, meðal annars í aðgengi að viðeigandi stuðningi og í samskiptum við kerfi sem koma að málefnum fjölskyldna.
„Það er mikill heiður að fá svona verðlaun. Það er viðurkenning á gæðum rannsóknarinnar en fyrst og fremst vekja þau athygli á stöðu fatlaðra foreldra innan kerfisins og þá sérstaklega seinfærra foreldra en hún er ákaflega þung, bæði hvað varðar aðgengi að viðeigandi stuðningi í foreldrahlutverkinu og réttlátri meðferð innan kerfisins,“ segir Sara á vef háskólans.


COMMENTS