Akureyringurinn Sigþór Veigar Magnússon hefur gefið út stiklu fyrir stuttmyndina Torpedo, sem mun fara á kvikmyndahátíðir á þessu ári. Sigþór skrifaði handrit myndarinnar þegar hann var á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 17 ára gamall og fékk svo tækifæri til þess að framleiða myndina á síðasta ári.
Sigþór lýsir Torpedo sem glæpa/hryllingsstuttmynd með svörtu grín ívafi. Kvikmyndin fjallar um tvo lágkúrulega handrukkara að norðan, Abel og Ísak. Ísak á sér drauminn að taka glæpalífið í sínar hendur og lifa stórkostlega. Á meðan Abel sér myrka veginn framundan, og veltir því fyrir sér hvort það sé of seint að snúa lífi sínu við.
„Torpedo byrjaði sem verkefni sem ég ætlaði að gera sem lokaverkefnið mitt í VMA. Mig langaði rosalega að gera stuttmynd þar sem ég hafði drauma að vinna í kvikmyndabransanum. Svo ég hóf verk á handriti að mynd sem ég hefði gaman af. Snögglega eftir að skrifa handritið og að koma fólki saman í að loks gera verkefnið, komst ég að því að ég hafði enga hugmynd hvernig átti að gera kvikmyndir,“ segir Sigþór í spjalli við Kaffið.is.
Eftir námið í VMA fór Sigþór í kvikmyndanám í Noregi. Hann útskrifaðist þaðan árið 2023 og flutti til Reykjavíkur og fór að vinna í kvikmyndaverkefnum.
„Síðan hef ég ferðast víða og kynnst allskonar fólki í allskonar verkefnum. Einn daginn heyrði í mér félagi minn Vilhjálmur Reykjalín, sem hefur unnið í bransanum í doltinn tíma, og bauð mér í Kaffi þar sem planið var að koma nýjum hugmyndum í verk. Þar sá ég tækifærið að kynna stuttmyndina Torpedo fyrir honum, þar sem þá var ég reynslunni ríkari og taldi að ef ég mun einhverntímann gera þessa mynd þá væri það núna,“ segir Sigþór.

„Ég fékk til liðs við mig bæði nýtt fólk sem ég hef ekki unnið áður með, og gamla vini sem ætluðu með mér í þetta meðan ég vann að þessu í framhaldsskóla. Saman sköpuðum við ótrúlegt teymi af frábæru fólki sem tókust á þetta krefjandi verkefni, sem tókst frábærlega.“
Í aðalhlutverkum myndarinnar eru þeir Örn Smári Jónsson í hlutverki Abels, og Gunnbjörn Gunnarsson í hlutverki Ísaks. Í aukahlutverkum eru Sindri Swan, Freysteinn Sverrisson, Agnes Emma Sigurðardóttir og Sigfinnur Helgi Gunnarsson.

„Örn Smári er félagi minn sem var með mér í VMA sem átti að leika lítið hlutverk í myndinni þegar við reyndum það 2017. Hann er þraulreyndur leikari núna og passaði fullkomnlega í aðalhlutverkið. Gunnbirni kynntist ég í borginni og hann er einn hæfileikaríkasti leikari sem ég hef kynnst á mínum stutta ferli. Þeir tveir hafa frábæra orku saman á skjánum, og gerðu verkið að leikstýra þeim auðvelt.“
Sigþór segir að myndin muni fara á kvikmyndahátíðir víða á árinu og svo megi fólk hafa augun opin fyrir sýningum síðar á árinu.
Hér má sjá stiklu fyrir Torpedo:


COMMENTS