Sjálf­boða­liðar – Til hamingju með daginn!

Sjálf­boða­liðar – Til hamingju með daginn!

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson skrifar

Víða í samfélaginu okkar má finna öfluga sjálfboðaliða. Við skulum alltaf hugsa hlýtt til þeirra og þakka fyrir þeirra óeigingjarna og ómetanlega framlag til samfélagsins. Sameinuðu þjóðirnar ákváðu árið 1985 að tileinka skyldi 5. desember ár hvert sjálfboðaliðum. Ekki aðeins til að hampa þeim og vekja athygli á mikilvægi þeirra, heldur einnig til að hvetja til aukinnar þátttöku í sjálfboðaliðastarfi.

Mín reynsla sem sjálfboðaliði hefur fyrst og fremst verið á vettvangi ungmennafélagshreyfingarinnar, þar sem sjálfboðaliðar gegna algjöru lykilhlutverki. Þeir sitja í stjórnum félaga, standa sjoppuvaktina, þeir sinna dómgæslu, þeir eru á ritaraborðinu, þeir eru í gæslu og svo lengi mætti áfram telja. Ef ekki væri fyrir þá væri t.d. mótahald nær ógerlegt.

Margar af mínum bestu stundum innan ungmennafélagshreyfingarinnar hafa einmitt verið við framkvæmd móta. Hvergi skín hinn eini sanni og frábæri ungmennafélagsandi eins skært og þegar sjálfboðaliðar koma saman. Sjálfboðaliðar í mínum huga standa fyrir samstöðu, kraft og vilja til að láta hlutina ganga eins og best verður á kosið.

Hér eru nokkrar tillögur frá mér til þín: Næst þegar þú ferð á íþróttaviðburð, staldraðu við og hugsaðu hvernig viðburðurinn væri án sjálfboðaliða. Næst þegar þú ferð að fylgjast með barninu þínu keppa og finnst dómarinn kannski ekki dæma rétt, hugsaðu hvernig væri þessi leikur án dómara? Dómarinn er mjög líklega að gefa vinnu sína, tíma og er að gera sitt besta.

Ég hvet þig lesandi góður til að staldra við á næsta íþróttaviðburði sem þú ferð á og hrósa a.m.k. einum sjálfboðaliða og þakka fyrir framlagið. Staðreyndin er sú að sjálfboðaliðar skipta samfélagið okkar ótrúlega miklu máli, við þurfum að hvetja þá áfram til dáða og tryggja að starfsumhverfi þeirra sem gefa af sér í sjálfboðaliðastarfi sé sem best. Það gerum við meðal annars með þakklæti, hvatningu og hlýju.

Það að vera sjálfboðaliði snýst ekki bara um að gefa vinnuframlag, félagslegi þátturinn er einnig mjög sterkur þar sem fólk vinnur saman sem ein heild að settu marki. Ég hvet þig lesandi góður til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi og gefa þar með af þér til samfélagsins, því þeir sem sinna sjálfboðaliðastarfi eru skv. niðurstöðum rannsókna hamingjusamari einstaklingar heldur en þeir sem ekki sinna því. Sjálfboðaliðinn er því það dýrmætasta og mikilvægasta sem við eigum í okkar samfélagi og þeir eru aldrei of margir!

Sjálfboðaliðar! Ykkar ómetanlega og óeigingjarna framlag til samfélagsins verður aldrei metið til fulls. Til hamingju með daginn, takk fyrir ykkur!

Höfundur situr í varastjórn Ungmennafélags Íslands.

COMMENTS