Sjúkraflutningaskólinn hefur fengið þrjár nýjar og sérhæfðar kennsludúkkur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Sjúkrahússins á Akureyri þar sem segir að dúkkurnar muni nýtast mjög vel í starfi skólans.
„Stærsti kosturinn er að þær henta bæði vel fyrir færnikennslu og hermikennslu. Þær eru meðfærilegar og því hægt að setja upp raunhæfar æfingar, nánast hvar sem er.“ segir Sigurjón Valmundsson, verkefnastjóri sjúklingaskólans, á vef SAk.
„Það er til dæmis hægt að koma „sjúklingnum“ fyrir í mismunandi aðstæðum, hvort sem er inni í íbúð, bíl eða hvar sem er. Þar er hægt að hefja meðferð, undirbúa og hefja flutning inn í sjúkrabíl og sinna áfram, rétt eins og gerist í raun og veru. Þannig er hægt að skapa raunhæfar aðstæður til æfinga, sem er ákaflega verðmætt,“ segir Sigurjón.
Á myndinni eru: Ingimar Eydal, skólastjóri sjúkraflutningaskólans, kennsludúkkurnar þrjár og Sigurjón Valmundsson, verkefnastjóri sjúkraflutningaskólans.


COMMENTS