Sniðgangan 2025 verður haldin þann 20. september klukkan 14:00. Á Akureyri verður lagt af stað frá Háskólanum á Akureyri, við Íslandsklukkuna. Gangan endar á Ráðhústorgi klukkan 15:15 þar sem við tekur dagskrá með erindum og tónlist.
„Íslensk stjórnvöld tilkynntu nýverið afar máttlausar aðgerðir gegn Ísrael. Til að sýna stjórnvöldum að þau þurfa að ganga miklu lengra og til að efla vitundarvakningu um sniðgöngu þá komum við saman í samstöðu með Palestínu í Sniðgöngunni. Gengið verður á sama tíma á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Gangan á Akureyri verður 2.8 kílómetrar. Göngufólki er í sjálfsvald sett hvort það gengur alla leið eða hluta. Einnig er í boði að sleppa göngu og mæta til fundar við göngufólk að göngu lokinni á Ráðhústorgi, Akureyri um klukkan 15:15.
Dagskrá göngunnar verður sem hér segir (með fyrirvara um breytingar):
14:00 – Háskólinn á Akureyri hjá Íslandsklukkunni. Göngufólk safnast saman og hlýðir á stutt erindi.
14:20 – Gengið af stað frá HA upp Dalsbrautina.
14:45 – Stutt stopp hjá KA heimilinu þar sem fólk getur bæst í hópinn.
15 – Stutt stopp hjá Berjaya hóteli þar sem fólk getur bæst í hópinn.
15:15 – Ráðhústorg þar sem verður dagskrá með erindum og tónlist.
Í byrjun og enda göngunnar verður söluborð með varningi til styrktar Vonarbrú og Félaginu Ísland-Palestína (FÍP).
„Hvetjum öll til að mæta með keffiyeh klúta, Palestínu fána og eigin skilti. Við mælum með vefsíðunni https://snidganga.is/ fyrir þá sem vilja kynna sér hvað sniðganga gengur út á,“ segir í tilkyningu.
Viðburðurinn er samstarf sniðgönguhreyfingarinnar BDS Ísland / BDS Iceland*, Félagsins Ísland-Palestína, Vonarbrúar og Dýrsins – félags um réttinn til að mótmæla.
Sniðganga (e. boycott) er friðsamleg aðferð sem miðar að því að tjá siðferðislega og pólitíska vanþóknun á viðvarandi aðgerðum einstaklinga, stofnana og/eða ríkja sem skaða aðra. Sniðganga felur í sér að draga til baka stuðning, siðferðislegan og/eða efnislegan, við þær persónur og stofnanir sem skaða aðra, svo lengi sem viðkomandi reynir að viðhalda núverandi ástandi. Þessi aðferð er yfirleitt notuð þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar.
Á heimasíðu BDS hreyfingarinnar á Íslandi, www.snidganga.is, má finna svar við spurningum og ýtarlegar upplýsingar.


COMMENTS