Spiluðu golf í sólarhring til að safna fyrir æfingaferð og mótumLjósmyndir: Golfklúbbur Akureyrar

Spiluðu golf í sólarhring til að safna fyrir æfingaferð og mótum

Börn og unglingar frá Golfklúbbi Akureyrar spiluðu áheitagolf linnulaust í heilan sólarhring í golfhermi á Jaðri síðustu helgi. Upphafshöggið var slegið föstudaginn 23. janúar klukkan 16:00 og svo var spilað til klukkan 16:00 daginn eftir, laugardaginn 24. janúar. Frá þessu er greint á heimasíðu klúbbsins.

Allt var þetta gert til þess að safna fyrir æfingaferð og golfmótum sumarsins. Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki í bænum studdu ungu golfarana og á heimasíðu klúbbsins þakkar hópurinn kærlega fyrir veittan stuðning.

Hópurinn stefndi á að klára að minnsta kosti 400 holur en þau gerðu gott betur og léku 747 holur á 41 mismunandi velli í fimm heimsálfum. Hópurinn fór einu sinni á erni og 84 sinnum á fugli.

Einnig voru margir sem komu og spreyttu sig í leiknum „Næst holu,“ þar sem slegið var af rauðum teig á 18. holu á Jaðarsvelli. Næstur holu var Ottó Hólm Reynisson en hann var aðeins 0,3 metra frá holu. Engin hola í höggi kom að þessu sinni.

Fjölmörg fyrirtæki studdu golfarana.

COMMENTS