Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri fór fram í fjórum athöfnum í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri 13. og 14. júní. Aldrei hafa fleiri kandídatar brautskráðst frá háskólanum en samtals brautskráðist 591 kandídat í grunn- og framhaldsnámi af tveimur fræðasviðum.
Föstudaginn 13. júní brautskráðust 162 kandídatar úr framhaldsnámi og laugardaginn 14. júní brautskráðust 429 kandídatar úr grunnnámi í þremur athöfnum. Í fyrstu athöfn laugardagsins voru brautskráðir kandídatar með bakkalárpróf af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði. Í annarri athöfn voru brautskráðir kandídatar með bakkalárpróf af Hug- og félagsvísindasviði og loks voru brautskráðir kandídatar með diplómu af báðum fræðasviðum í þriðju og síðustu athöfn laugardags.
HA-ingar hafa verið heppnir með veður þegar Háskólahátíð er haldin og var það alls engin undantekning í ár og má með sanni segja að veðrið hafi leikið við kandídata og gesti. Skipulagning og framkvæmd Háskólahátíðar gekk vonum framar og erum við sérstaklega stolt af því að geta brautskráð kandídata í persónulegri og vandaðri athöfn innan veggja skólans. Þá gerir starfsfólk KHA það mögulegt að hægt sé að sýna frá Háskólahátíð í beinni útsendingu og þar er svo sannarlega vandað til verka.
Hefð er fyrir því að kandídatar flytji ávarp fyrir hönd kandídata og fluttu kandídatar ávörp í öllum fjórum athöfnunum. Ávörpin voru persónuleg og áttu það sameiginlegt að tala til samnemenda og háskólans. Hér er gripið niður í vegferð Gissurar Karls Vilhjálmssonar, kandídats í sjávarútvegsfræði, sem ákvað að byrja í fjarnámi en skipti fljótt yfir í staðnám og tók vin sinn með norður á Akureyri. „Ég fann hvað andrúmsloftið í skólanum var sérstakt, hvað fólk var opið, samheldið og áhugasamt. Ég fann hvað kennararnir voru aðgengilegir og umhverfið styðjandi. Allt í einu var það ekki svo galin hugmynd að flytja norður. Það gerðum við – og við sjáum svo sannarlega ekki eftir því í dag.“
Í ár fluttu fjórir kandídatar ávarp:
- Hrefna Hafdal, kandídat í heilbrigðisvísindum, fyrir hönd kandídata í framhaldsnámi
- Gissur Karl Vilhjálmsson, kandídat í sjávarútvegsfræði, fyrir hönd kandídata í grunnnámi á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði
- Margrét Lillý Einarsdóttir, kandídat í lögfræði, fyrir hönd kandídata í grunnnámi á Hug- og félagsvísindasviði
- Nana Rut Hlynsdóttir, kandídat í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn, fyrir hönd kandídata í diplómanámi
„…gera háskólann að ykkar háskóla” – ræða rektors
Mikilvægi háskólans fyrir samfélagið var leiðarstefið í ræðu rektors og að Háskólinn á Akureyri hefði byggt upp þá kennslu, rannsóknarstarf og þekkingarsamfélag sem í dag leiddi til þess að um helgina brautskráðist 591 kandídat sem er stærsti brautskráningarhópur frá upphafi skólans. „Þessi stóri hópur endurspeglar stöðugan vöxt skólans og fleiri hafa sótt um nám fyrir næsta ár en nokkru sinni fyrr. Saman mynda svo kennarar, stúdentar og starfsfólk þekkingarsamfélag sem er mikilvægt fyrir Ísland allt. Er það lykillinn að frekari þróun háskólans að við höldum áfram að eflast og stækka og verðum vonandi annar stærsti háskóli Íslands í framtíðinni.”
Rektor talaði einnig beint til kandídatanna í ræðu sinni og ítrekaði mikilvægi þeirra fyrir skólann: „Kæru kandídatar, þið hafið svo sannarlega verið mikilvægur hluti af samfélagi okkar, hvar sem þið búið á landinu. Þið hafið ekki aðeins lært – heldur einnig tekið þátt í uppbyggingu námssamfélagsins. Stúdentar sitja í mikilvægum nefndum og ráðum og eiga meðal annars sæti á deildarfundum og í háskólaráði. Þannig er tryggt að þið hafið áhrif á skólann. Þeir stúdentar sem taka þetta verkefni að sér leggja á sig mikla vinnu samhliða námi með því að starfa í stúdentafélögum, sinna hagsmunagæslu og halda utan um fjölbreytt félagslíf. Störf þessara einstaklinga gera háskólann að ykkar háskóla.”


COMMENTS